„Sitjandi formaður hafði betur og ég er sátt við þá niðurstöðu, styð Árna Pál og tel það styrkja flokkinn að undiralda fái að komast upp á yfirborðið,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í yfirlýsingu sem hún hefur sent fjölmiðlum. Sigríður Ingibjörg bauð sig fram til formanns gegn Árna Páli Árnasyni á landsfundi Samfylkingarinnar. Aðeins einu atkvæði munaði í kosningunni. Sigríður Ingibjörg segir að sú heift „sem birst hefur vegna framboðs míns er í algjörri andstöðu við þann kraft sem kom fram á landsfundi. Ég kýs að túlka það sem svo að ásakanir áhrifafólks í Samfylkingunni vegna lýðræðislegs framboðs míns hafi verið settar fram í hita leiksins.“
Yfirlýsing Ingibjargar í heild:
Framboð mitt til formanns í Samfylkingunni á landsfundi nú um helgina var svar við kröfum fólks um breyttar og skýrari áherslur Samfylkingarinnar. Kosningabaráttan var snörp. Sitjandi formaður hafði betur og ég er sátt við þá niðurstöðu, styð Árna Pál og tel það styrkja flokkinn að undiralda fái að komast upp á yfirborðið og umbreytast í kraft til að skerpa áherslur jafnaðarstefnunnar og endurmeta stefnumál. Öllum má vera ljóst að áhrifa gætti þegar daginn eftir, þegar nýtt fólk var valið til ábyrgðarstarfa innan flokksins, margt af því ungt hugsjónafólk með skýrar áherslur og með samþykktum landsfundar á róttækum ályktunum um lífskjör, umhverfisvernd, mannréttindi og frjálslyndi.
Landsfundur Samfylkingarinnar varð allt í senn, snarpur, kröftugur og róttækur. Sú heift sem birst hefur vegna framboðs míns er í algjörri andstöðu við þann kraft sem kom fram á landsfundi. Ég kýs að túlka það sem svo að ásakanir áhrifafólks í Samfylkingunni vegna lýðræðislegs framboðs míns hafi verið settar fram í hita leiksins.
Við Árni Páll erum einhuga um að nýta kraftinn frá landsfundi til að herða sókn Samfylkingarinnar. Samfylkingin hefur á að skipa frábæru fólki á öllum aldri, af öllu landinu, sem ég hlakka til að starfa áfram með að réttlátara samfélagi. Við höfum verk að vinna.