Hafnarfjarðarbær ekki tilbúinn að greiða fyrir flutning háspennulína við Vallahverfi

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is/Eggert

Landsnet hefur verið reiðubúið að færa háspennulínur við Vallahverfið ef bæjarfélagið greiðir kostnaðinn við flutning þeirra, eins og lög gera ráð fyrir.

Í yfirlýsingu frá Landsneti segir að Hafnarfjarðarbær hafi ekki verið tilbúinn að taka á sig þann kostnað og því varð að samkomulagi á sínum tíma að aðlaga flutning umræddra lína að framkvæmdaáætlun Landsnets.

„Í framkvæmdaáætlun Landsnets var áformað að flytja línurnar í tengslum við uppbyggingaráform á Reykjanesi en forsendur breyttust og uppbyggingaráform töfðust. Í kjölfarið var flutningi línanna frestað enda er Landsneti ekki heimilt að fjármagna slík verkefni og velta kostnaði við þau yfir á notendur í gegnum gjaldskrá fyrirtækisins,“ segir í yfirlýsingunni.

Uppbygging hafin að nýju á Reykjanesi

Uppbygging er hins vegar hafin að nýju á Reykjanesi og forsendur til að halda áfram með fyrri áform um uppbyggingu flutningskerfisins. Nýjar áætlanir gera ráð fyrir því að tengja í fyrsta áfanga Suðurnesjalínu 2 með jarðstreng við tengivirkið í Hamranesi, næst Vallahverfinu.

„Þar með er hætt við að byggja bráðabirgðaháspennulínu eins og áður var áformað. Jafnframt hefur Landsnet hafist handa við að undirbúa að leggja nýja háspennulínu frá Sandskeiði til Hafnarfjarðar, sem er forsenda fyrir því að hægt verði að fjarlægja sem fyrst svokallaðar Hamraneslínur, sem liggja frá Geithálsi í gegnum Heiðmörk, eitt helsta útivistarsvæði höfuðborgarbúa, og til Hafnarfjarðar,“ segir í yfirlýsingunni.

Einnig kemur fram í yfirlýsingunni að undirbúningur gengur vel og gerir Landsnet sér vonir um að framkvæmdir geti hafist árið 2016. Verkið er unnið í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði og mun koma til með að breyta ásýnd Vallahverfisins frá því sem nú er og draga úr hljóðmengun og óþægindum fyrir íbúa. Viðræður eru einnig í gangi við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði um frekari breytingar sem taka mið af aðalskipulagi bæjarfélagsins.

„Landsnet hefur fullan skilning á sjónarmiðum íbúa í Vallahverfinu og þykir miður hvernig mál hafa þróast frá þeim áformum sem upp voru á sínum tíma um flutning umræddra háspennulína. Misvísandi upplýsingar hafa einnig flækt málið en nú horfir vonandi til betri vegar fyrir alla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert