Ætla að frelsa geirvörtuna á morgun

Nemendur á framhalds- og háskólastigi ætla að frelsa geirvörtuna á …
Nemendur á framhalds- og háskólastigi ætla að frelsa geirvörtuna á morgun. mbl.is/Þorkell

Háskóla- og framhaldsskólanemar ætla að frelsa geirvörtuna á morgun en mikil umræða hefur skapast á samfélagsmiðlinum Twitter eftir að nemi í Verslunarskóla Íslands birti mynd af sér sem sýndi brjóst hennar. Daginn eftir gagnrýndu tveir unglingsstrákar hana fyrir að hafa sett myndina af sér á netið og þá fór boltinn að rúlla.

Femínistafélag Verslunarskólans ákvað að halda #FreeTheNipple dag, þar sem konur í skólanum eru hvattar til að mæta í skólann án brjóstahaldara. Heiti byltingarinnar er sótt til myllumerkisins #FreeTheNipple á Twitter sem hefur vakið mikla athygli netverja um heim allan. 

<blockquote class="twitter-tweet">

Ef það hefur farið fram hjá einhv.um þá er <a href="https://twitter.com/hashtag/freethenipple?src=hash">#freethenipple</a> dagur í Verzló á morgun! ÁFRAM ALLIR ÞIÐ SEM HAFA NÁÐ AÐ SPRENGJA TWITTER!

— Femínistafélag VÍ (@ffvi1415) <a href="https://twitter.com/ffvi1415/status/580753577334935553">March 25, 2015</a></blockquote><script async="" charset="utf-8" src="//platform.twitter.com/widgets.js"></script><div id="embedded-remove"> </div>

Bóel Sigríður Guðbrandsdóttir, formaður Femínistafélags Verslunarskólans, segir undirtektirnar hafa verið ótrúlegar en Femínistafélag Háskóla Íslands hefur ákveðið að halda #FreeTheNipple dag í Háskóla Íslands á morgun og einnig Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn í Hamrahlíð og Menntaskólinn í Reykjavík.

„Við hvetjum allar stelpur til þess að sleppa því að vera í brjóstahaldara í skólanum á morgun,“ segir Bóel en femínistafélag skólans stuðlar að fræðslu og skipuleggur ýmsa viðburði er snúa að jafnrétti.

Hún segir að eftir að femínistafélagið auglýsti viðburðinn á Facebook-síðu sinni hafi boltinn byrjað að rúlla. „Ég hugsa að flestar konur taki vel í þetta, þetta stuðlar að jafnrétti. Af hverju er konum bannað að vera berar að ofan en ekki körlum. Brjóst eru ekki kynfæri,“ segir Bóel.

Góðar undirtektir í Háskóla Íslands

Heiður Anna Helgadóttir, formaður Femínistafélags Háskóla Íslands, gerir ekki ráð fyrir að margir mæti berbrjósta á morgun en segir nemendur háskólans taka mjög vel í viðburðinn.

„Ég býst ekki við að margar mæti berbrjósta. Strákar mæta ekki berbrjósta í skólann á virkum degi,“ segir Heiður og hlær. Hún segir þetta snúast um að senda skýr skilaboð út í samfélagið. „Það er samfélagslega samþykkt að allar konur eigi að ganga í brjóstahaldara. Sumum konum finnst það þægilegra, en hjá sumum er þetta samfélagsleg pressa,“ segir Heiður.

„Það er rosalega tabú að það sjáist í geirvörtuna. Þetta snýst um þetta tabú sem brjóst eru í dag, sem er frekar fáránlegt af því að karlmenn eru líka með brjóst og það er ekkert stórmál,“ segir hún.

Hún segist aðallega hafa orðið vör við umræðuna á samfélagsmiðlum en segist þó eitthvað hafa orðið vör við umræður um viðburðinn. „Þetta er mjög jákvætt og eru 150 manns búnir að staðfesta sína þátttöku á innan við klukkutíma á Facebook,“ segir Heiður.

Hún segir ekki marga, en þó einhverja, reyna að gera lítið úr deginum með því að tala um hvað það sé gaman að fá brjóstamyndir á netið. Þeir einstaklingar eru ekki alveg að „ná pointinu“, segir Heiður og bætir við að þeir einstaklingar fái ekki að eyðileggja þennan dag.

Hún segist hafa verið spurð að því hvort hún ætlaði að mæta ber að ofan í skólann á morgun, en hún segir að svo verði ekki.

„Alls ekki, ég ætla ekki að gera það. Það er enn vetur og kalt,“ segir hún en bætir við að þetta snúist frekar um að sleppa því að vera í brjóstahaldara á morgun. Hún hefur heyrt mörg dæmi þess að konur fái athugasemd frá öðrum af því að það sést í geirvörtuna í gegnum fatnað.

Bóel Sigríður Guðbrandsdóttir, formaður Femínistafélags Verslunarskóla Íslands.
Bóel Sigríður Guðbrandsdóttir, formaður Femínistafélags Verslunarskóla Íslands. Ljósmynd/Hellcat
Heiður Anna Helgadóttir, formaður Femínistafélags Háskóla Íslands.
Heiður Anna Helgadóttir, formaður Femínistafélags Háskóla Íslands. Ljósmynd/Heiður Anna Helgadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka