Ákærðir fyrir gróf ofbeldisbrot

Árásin átti sér stað í ágúst í fyrra.
Árásin átti sér stað í ágúst í fyrra. AFP

Kristján Markús Sívarsson og tveir nítján ára gamlir piltar hafa verið ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, frelsissviptingu, ólögmæta nauðung og tilraun til fjárkúgunar. Þeim er m.a. gefið að sök að hafa sparkað í höfuð manns, gefið honum rafstuð í kynfæri og stinga hann í lærið með óhreinni sprautunál.

Ríkissaksóknari gaf út ákæru í málinu 13. febrúar sl. og þar er að finna ásakanir um gróft ofbeldi.

Eru þremenningarnir sakaðir um að hafa aðfararnótt 6. ágúst í fyrra í Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi veist í félagi að manni og slegið hann ítrekað í andlit og líkama. Þeir spörkuðu í höfuð hans og gáfu honum rafstuð með rafmagnsvopni, eða svokallaðri rafstuðbyssu, oft og víðsvegar um líkama mannsins, þar á meðal í kynfæri hans. 

Þá segir að þeir hafi stungið manninn í lærið með óhreinni sprautunál í því skyni að smita hann af lifrabólgu C. Þá neyddu þeir hann til að drekka smjörsýru auk þess að krefja hann um 500.000 til 800.000 kr. greiðslu sér til handa ella yrði manninum nauðgað og hann beittur frekara ofbeldi.

Fram kemur ákæru að maðurinn hafi verið sviptur frelsi í rúma klukkustund.

Þá segir að maðurinn hefði hlotið margskonar áverka, m.a. mar, bólgur og skrámur.

Brot þremenninganna teljast varða við 2. mgr. 218. gr., 225. gr., 226. gr., og 251. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Brotin geta varðað allt að 16 ára fangelsi.

Þá er Kristján, sem er 34 ára gamall, ákærður fyrr að hafa í júlí og ágúst í fyrra hafið framleiðslu ólöglegs áfengis á heimili sínu með því að framleiða 198 lítra af gambra sem innihélt 18% v/v etanóls þegar lögregla gerði þar húsleit í ágúst 2014.

Þá er þess krafist að dómari geri anabolíska stera, amfetamín, rafmagnsvopn og tvíhleyptri haglabyssu upptæka. 

Í málinu er gerð einkaréttarkrafa á hendur þremenningunum, en maðurinn sem varð fyrir árásinni krefst þess að þeir verði dæmdir sameiginlega til að greiða honum þrjár milljónir króna í miskabætur. 

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert