Þrjár ungar konur hvetja landsmenn til að fjölmenna í Laugardalslaug í kvöld og flagga fögrum brjóstum í tilefni af #FreeTheNipple, líkt og segir í tilkynningu. Ekki þarf að vera ber að ofan til að taka þátt í viðburðinum.
Þær Guðbjörg Ríkey Thorodden Hauksdóttir, Hanna María Geirdal og Karen Björk Eyþórsdóttir standa fyrir viðburðinum en þær tvær síðarnefndu tóku sig til í gær og ákváðu að sameina fjölda viðburða í dag þar sem fólk, þá sérstaklega konur, var hvatt til að frelsa geirvörtuna og vera bert að ofan eða brjóstahaldaralaust í dag.
Viðburðurinn var þó fjarlægður þar sem myndin sem fylgdi honum þótti ekki samræmast reglum Facebook og fékk Hanna María viðvörun í morgun. Verði hún ekki við skilmálum Facebook og haldi áfram að birta efni sem þetta gæti aðgangi hennar verið lokað. Hún segist vona að ekki komi til lokunar en segir að þetta sýnir þörfina fyrir viðburð sem þennan, #FreeTheNipple. Annar viðburður var stofnaður og hefur honum enn sem komið er ekki verið lokað.
„Ég held að það verði góð mæting,“ segir Hanna María í samtali við mbl.is um sundferðina. Hún segir hópinn hafa rætt við Laugardalslaug og þangað séu allir velkomnir, berir að ofan eða ekki. Því ætti engin kona að þurfa að hafa áhyggjur af því að vera vísað úr lauginni fyrir að vera berbrjósta í heita pottinum.