„Þessar konur sem beruðu á sér brjóstin í gær tóku ákveðið frumkvæði, þær tóku stórt skref og gáfu upp boltann á margan hátt, og nú er það okkar að grípa þennan bolta sem samfélag og ef einhverjir skemmdarvargar fara að taka upp á því að slíta þessar myndir úr samhengi og setja þær í eitthvað samhengi sem er niðurægjandi eða fyrirlitningafullt eða drusluskammandi, þá er það á okkar ábyrgð að leyfa þeim ekki að komast upp með það.“
Þetta segir Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, sem um þessar mundir stendur fyrir fræðsluátakinu „Ber það sem eftir er“, um #freethenipple bylgjuna sem fór um íslenska netheima og víðar í gær.
„Þegar ég sá hvernig fólk var að framkvæma þetta og það lá ljóst fyrir hvað vakti fyrir þátttakendum, sem var í langflestum tilvikum að skora hlutgervingu á hólm og taka skömmina af kvenlíkamanum, því hann á auðvitað ekki að vera sveipaður skömm, þá fundust mér það frábær baráttumál,“ segir Þórdís.
Hún segir fyrir neðan allar hellur að fólk skuli fetta fingur út í jafn sjálfsagða hluti og brjóstagjöf, og að mótmæla því sé vel þess virði.
„Ber það sem eftir“ er fræðsluátak um hefndarklám og segir Þórdís að eitt af því sem hún hafi orðið áþreifanlega vör við í starfi sínu sé að dreifing á netinu á hvers kyns efni sé eitthvað sem fæstir hafa stjórn á.
Hún segir að sér hafi þótt mikill sigur fólginn í því að þolendur hefndarkláms upplifðu samstöðu og ákveðna uppreisn æru í gær, en velti því jafnframt fyrir sér hvort reynt yrði að snúa gleðilegri baráttunni upp í andhverfu sína af skemmdarvörgum.
„Þessi bylgja gengur jú út á mjög mikivægan hlut, sem er að mótmæla fyrirlitningu, drusluskömm og hlutgervingu. En ef svona myndir væru síðan settar inn á vefsíður sem einkennast af fyrirlitningu, drusluskömm og hlutgervingu, þá væri það mjög leiðinleg afleiðing af einhverju sem er svo fallegt og þarft. Þannig að það sem vaknaði hjá mér var mjög eindreginn vilji til að standa með þeim sem tóku þátt í þessu átaki alla leið,“ segir Þórdís.
Hún segir mikilvægt að samfélagið í heild geri slíkt hið sama. Þá tekur hún undir mikilvægi þess að gera greinarmun á því þegar einstaklingar velja sjálfir að deila persónulegum myndum og því þegar persónulegum myndum er dreift án samþykkis.
„Það er auðvitað alveg sami skýri greinarmunur og á milli þess að þegar maður á kynmök við einstakling sem er samþykkur þá heitir það kynlíf en ef maður á kynmök við einstakling sem er ekki samþykkur þá heitir það nauðgun,“ segir Þórdís.
„Auðvitað er samþykki jafn mikilvægt atriði í þessu eins og það er í öllum nánum og kynferðislegum samskiptum. Og þess vegna segi ég að mér finnst ábyrgð hvíla á okkur sem samfélagi, ef þessar myndir sem voru teknar í baráttuhug og af góðum og gegnum ástæðum rata á einhverjar skuggalendur, þá megum við ekki dæma þá sem á myndunum sjást fyrir það. Þá verðum við að taka afstöðu með þeim, alla leið. Að þessi stuðningur sé ekki bara á deginum sem #freethenipple stóð yfir, heldur líka kannski eftir einhver ár, ef þessar leitarniðurstöður fara að dúkka upp síðar meir. Að þá leyfum við ekki skemmdarvörgunum að gera þetta að niðurlægingu eða skömm.“