Sorry, Netflix is not available in your country yet. Við biðjum forláts, en Netflix er ekki aðgengilegt í þínu landi enn sem komið er. Þetta eru skilaboðin sem blasa við Íslendingum þegar farið er á vefsíðu áskriftarþjónustunnar Netflix. Það gæti þó breyst gangi áform Samfilm eftir, en fyrirtækið náði nýverið samkomulagi við Netflix um uppsetningu þjónustunnar hér á landi síðar á árinu. Áþekk síða, Popcorn Time, nýtur mikilla vinsælda, en þar er á ferðinni torrent-síða sem er ólögleg hér á landi því þar er dreift efni sem er varið höfundarrétti án heimilda. Lögmaður segir ýmar leiðir til að stemma stigu við ólöglegri dreifingu efnis á netinu.
Netflix er áskriftarþjónusta á netinu sem veitir ótakmarkaðan aðgang að sjónvarpsþáttum og kvikmyndum sem notendur geta horft á fyrir fast mánaðargjald. Meira en 57 milljónir manna í um 50 löndum víða um heim nota Netflix sem gerir það hana að stærstu þjónustu sinnar tegundar í heimi. Fyrirtækið blés til sóknar í fyrra og stefnt er að því að þjónustan verði í boði í 200 löndum innan tveggja ára.
Í vefritinu Televised Revolution segir að þegar Netflix hyggi á nýja landvinninga þurfi fyrirtækið að semja við þá sem hafi sýningarréttindi að kvikmyndum og sjónvarpsþáttum í viðkomandi landi. Yfirleitt sé því til staðbundin útgáfa þjónustunnar í hverju landi fyrir sig. Samkvæmt lögum yrði Netflix ekki skylt að textasetja efni sitt hér á landi, því fyrirtækið verður ekki með starfsstöð hér.
Netflix hefur aldrei boðið upp á þjónustu sína hér á landi, en þrátt fyrir það er talið að a.m.k. 20.000 íslensk heimili séu með erlendan aðgang, flest með þann bandaríska. Í ljósi fréttaflutnings í síðasta mánuði um samninga Samfilm við Netflix um þjónustu hér á landi vakna ýmsar spurningar, t.d. hvort lokað verði á einhvern hátt fyrir bandarísku útgáfuna hér á landi og hvort verðmunur verði á henni og þeirri íslensku. Þetta liggur ekki fyrir, þar sem Árni Samúelsson, forstjóri Samfilm, hefur ekki svarað fyrirspurnum Morgunblaðsins.
Vöxtur og velgengni Netflix hefur verið umtalsverð en nú sækir að fyrirtækinu vel uppsett torrent-síða, sem býður upp á áþekka þjónustu. Munurinn er að hún er gjaldfrjáls og ólögleg víðast hvar. Í nýjasta ársfjórðungsuppgjöri sínu lýsti Netflix yfir áhyggjum af Popcorn Time sem er smáforrit og torrent- eða sjóræningjasíða. „Sjóræningjar eru okkar helsti keppinautur,“ segir í bréfi Netflix til hluthafa.
Popcorn Time er haldið úti frá Argentínu og ein ástæðan fyrir því að hún nýtur meiri hylli en aðrar sambærilegar síður er viðmót hennar sem þykir bæði aðlaðandi og notendavænt, öfugt við margar torrent-síður, en t.d. er hægt að leita að efni eftir flokkum. Ekki hefur verið staðfest hversu mikilli útbreiðslu Popcorn Time hefur náð þar sem ekki er greitt fyrir þjónustuna, en vefsíðan Torrent Freak áætlar að notendur séu a.m.k. 5-6 milljónir.
Í grein danska dagblaðsins Berlingske Tidende undir fyrirsögninni „Of gott til að vera löglegt“ segir að fleiri Svíar og Hollendingar noti nú Popcorn Time en Netflix, 100.000 Svíar visti smáforritið á degi hverjum og síðan sé nú vinsælli en Netflix á Spáni, Ítalíu og í Portúgal.
Þar sem Netflix og Popcorn Time eru netveitur er einn mælikvarðinn á fjölda notenda hversu oft er leitað að þjónustunni á Google. Sé skoðað hversu oft Íslendingar hafa leitað undir leitarorðunum Netflix og Popcorn Time undanfarið ár sést að leit að því síðarnefnda hefur vaxið mikið undanfarna mánuði og er nú um helmingur þess fjölda sem leitar að Netflix.
„Popcorn Time hefur verið að sækja í sig veðrið,“ segir Gunnar Guðmundsson, lögmaður og framkvæmdastjóri Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda.
Að sögn Gunnars hafa ýmis ráð verið reynd bæði hér og erlendis til að stemma stigu við síðum sem þessum og nefnir sem dæmi þegar íslenskum fjarskiptafyrirtækjum var fyrir nokkrum mánuðum gert að loka fyrir aðgang að torrent-síðunum deildu.net og Pirate Bay.
„Í Danmörku er samstarf á milli fjarskiptafyrirtækja og rétthafa. Þegar fólk fer inn á síður sem dreifa ólöglegu efni kemur upp svokallað Web Puff sem er tilkynning um að síðan sem viðkomandi ætli að fara inn á innihaldi ólöglegt efni. Rannsóknir hafa sýnt að um 80% þeirra sem fá svona skilaboð hætta við að fara inn á síðuna og þessi leið hefur verið rædd hér á landi.“
Er baráttan við ólöglega dreifingu efnis á netinu ekki fyrirfram töpuð? Sé einni síðu lokað, spretta strax upp nýjar? „Þetta er erfið barátta, það er rétt. Eitt af því sem við höfum reynt að gera er að höfða til samvisku notendanna,“ segir Gunnar.
„Þessi síða er öðruvísi en margar torrent-síður því hún virkar lögleg,“ segir Hallgrímur Kristinsson, formaður FRÍSK, Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, um Popcorn Time. „Hún er ekki með sama yfirbragð og sumar aðrar svona síður sem líta út eins og 13 ára krakki hafi búið þær til.“
Hallgrímur segist hafa fengið spurnir af því að Netflix verði í boði hér á landi fyrir lok ársins og að fjölmargir sem eiga aðild að FRÍSK hafi átt viðræður við fyrirtækið um notkun efnis. Hann segir þá samninga mislangt komna og að ekki sé betur vitað en að Netflix standi löglega að öllum sínum málum hér.
Í frétt danska Ekstrabladet í fyrra sagði að Danmörk væri það land þar sem Netflix kostaði mest. Þar er hægt að kaupa þrjár mismunandi áskriftarleiðir og er mánaðargjaldið frá 69 og upp í 109 danskar krónur. Í Bretlandi kostar ódýrasta áskriftin 6,99 pund, í evrulöndum er algengt verð 7,99 evrur og í Svíþjóð er mánaðargjaldið 89 sænskar krónur