„Því þeir sem eiga þessa mynd af mér hafa ekkert vald yfir mér lengur því ég á líkamann minn alveg sjálf.“
Þetta skrifaði hin 18 ára gamla Hrafnhildur Lára Ingvarsdóttir við mynd sem hún deildi af sér á Twitter í vikunni í tilefni #FreeTheNipple-byltingarinnar. Á myndinni er hún berbrjósta, eins og margar kynsystur hennar sem deildu myndum undir kassamerkinu, en aðeins fáeinum árum áður hafði myndin valdið henni mikilli vanlíðan sem leiddi til þunglyndis.
„Ég var 14 eða 15 ára þegar ég fékk mér gat í geirvörtuna. Ég sendi nokkrum bestu vinkonum mínum mynd af því á Snapchat, sem var ekki kynferðisleg á neinn hátt. Nokkrar þeirra tóku skjáskot en ég kippti mér ekki upp við það því þetta voru bestu vinkonur mínar sem ég treysti og ég bjóst ekki við því að neitt myndi gerast,“ segir Hrafnhildur.
Eftir að hún sendi myndina fór fjöldi fólks að setja sig í samband við hana og segja henni að það hefði séð myndina. Ekki leið að löngu þar til áreitið var orðið daglegt, og henni voru farnar að berast nafnlausar fyrirspurnir um það hvort myndin væri af henni. Þá voru henni sendar myndir af myndinni margoft á dag, og jókst vanlíðanin með hverjum deginum. Þunglyndi sem Hrafnhildur hafði lengi glímt við varð verra en nokkru sinni, og fékk hún mörg þunglyndisköst vegna þessa.
„Ég varð rosalega þunglynd og fannst ég ógeðsleg og skammaðist mín,“ segir Hrafnhildur og bætir við að hún hafi ekki sagt fjölskyldu sinni hvað var í gangi þar sem hún hafi verið hrædd við viðbrögðin. Þá segist hún ekki hafa getað talað við stelpurnar sem hún hélt að væru vinkonur sínar, þar sem viðbrögð þeirra voru á þann veg að hún hefði sent myndina og bæri þar með ábyrgð á því að hún væri í dreifingu.
Hrafnhildur segir þessa dreifingu á myndinni gegn hennar vilja hafa haft gríðarleg áhrif á líf hennar, og hvert sem hún hafi farið hafi hún velt því fyrir sér hvort fólk hafi séð á henni brjóstin. Þá hafi hún verið hrædd við álit fólks á sér, en þegar kvenfrelsisbyltingin braust út á Twitter breyttist þó viðhorf hennar, og hún hugsaði með sér: „Hvað ef ég set þessa mynd inn sjálf?“
„Þarna sá ég að ég gat sett þessa mynd inn sjálf í umhverfi þar sem margir aðrir voru að gera það, einmitt til að berjast fyrir því að þetta væri ekki eins og þetta var fyrir mig,“ segir Hrafnhildur, og bætir því við að ef byltingin hefði orðið á Twitter áður en myndin af henni fór í dreifingu hefði það ekki haft sömu áhrif á hana. „Ég hefði ekki einu sinni pælt í því og hefði ekki orðið svona rosalega þunglynd,“ útskýrir hún.
Hrafnhildur segist þó hafa þurft að hugsa sig rækilega um áður en hún ákvað að deila myndinni. Þá ráðfærði hún sig við kærastann sinn, sem studdi hana heilshugar. „Þegar ég spurði hann út í þetta sagði hann einfaldlega: „Þú átt líkama þinn sjálf, ég á hann ekki þótt ég sé kærastinn þinn,“ og fannst hugsunin á bak við þetta góð. Ég hélt hann myndi kannski segja að hann vildi bara að þetta væri fyrir hann, og hélt að það væri það sem ég vildi heyra, en þegar hann svaraði þessu áttaði ég mig á því hvað þetta var miklu betra svar.“
Seint á miðvikudagskvöld setti hún myndina inn á twittersíðu sína. „Ég setti myndina inn því ég vil berjast fyrir þessu líka. Ég vil ekki að neinn gangi í gegnum það sem ég gekk í gegnum því þetta er ekki svona mikil skömm. Þetta á ekki að vera svona mikið mál og hafa áhrif á líf stelpna eins og það gerði við mig.“
Skilaboðin segir hún hafa verið skýr: „Ég tek þetta í mínar hendur. Ég geri þetta sjálfviljug og það er mín ákvörðun en ekki neins annars. Þá er mér alveg sama hvort einhver hafi séð á mér brjóstin því ég ákvað þetta sjálf. Það er allt annað en þegar einhver tekur þá ákvörðun fyrir þig.“
Hún segir það vissulega hafa verið afar frelsandi og valdeflandi að setja myndina inn, og fagnar því að brjóst séu ekki eins mikið tabú nú og þau voru þegar myndin af henni fór í dreifingu. „Ég á mig sjálf og það er enginn sem getur gert neitt til að breyta því,“ segir hún.
Eftir að Hrafnhildur setti myndina inn fylltist pósthólfið hennar á Facebook og henni barst fjöldi SMS-skilaboða. Hún segir viðtökurnar hafa verið frábærar, og margir hafi þakkað henni fyrir að hafa stigið skrefið. „Fólk sagði mér að það hefði ekki skilið tilganginn með byltingunni fyrr en það sá þessa mynd hjá mér og mér finnst frábært að hafa hjálpað einhverjum við að breyta hugarfarinu. Fólk þakkaði mér líka mikið fyrir þetta eins og ég væri að gera þeim gott með því að sýna brjóstin á mér, en það sýnir líka hver tilgangurinn er og hvað þörfin á byltingunni er mikil. Mér finnst ég hafa lagt mitt af mörkum.“
Hrafnhildur segir þó ekki öll viðbrögðin hafa verið góð. „Það tekur auðvitað tíma fyrir samfélagið að breytast og það gerist ekki á einni nóttu. Það er skiljanlegt og fólk má hafa sínar skoðanir, en það er bara leiðinlegt þegar fólk er dónalegt,“ segir hún. „En ég skil að þetta breytist ekki einn tveir og bingó.“
Hún segir það hafa verið góða tilfinningu að geta slegið vopnin úr höndum þeirra sem eiga enn myndina af henni og hugðust nota hana gegn henni. „Það var einmitt ein af ástæðunum fyrir því að ég gerði þetta. Ég nenni ekki að þetta komi upp þegar ég er eldri eða að barnið mitt sjái þessa mynd og ég sé ennþá að skammast mín fyrir hana. Mig langar frekar að geta sagt að ég hafi birt hana sjálf og að ég sé stolt af því.“
Áður en Hrafnhildur setti myndina inn tók hún ákvörðun um það að hún vildi ekki hafa hana lengi á twittersíðu sinni. Þrátt fyrir að hafa tekið stórt skref og ákveðið það sjálft að fólk mætti sjá myndina vildi hún gera það á sínum eigin forsendum. „Ég vildi gera þetta og ég vildi gera þetta svona. Mér finnst ég ekki vera að gera neitt rangt í því þar sem þetta er minn líkami og ég má ráða hvað þetta er lengi á minni síðu,“ segir hún.
Hluta af ástæðunni segir hún þann að hún sé ennþá hrædd við afleiðingarnar þar sem samfélagið breytist ekki á einni nóttu. „En ég er ekki að styðja þetta á rangan hátt. Ég er að styðja þetta heilshugar og það er engin röng leið til þess.“
Hrafnhildur segir fyrsta skrefið í byltingunni, sem Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir steig þegar hún birti mynd af geirvörtunni á sér, hafa verið aðdáunarvert - og það sem eftir fylgdi hafi veitt henni mikinn styrk til að deila myndinni af sér. „Ég þurfti eiginlega á þessu að halda til að líða vel með mig. Ég þurfti þennan vettvang til að geta tekið þetta í mínar hendur án þess að vera ein. Það var þarna eða aldrei, og mér líður svo vel með að hafa gert það. Þetta breytti öllu,“ segir hún og heldur áfram:
„Eftir þennan dag er mér alveg sama og það er alveg frábært því ég bjóst ekki við því að verða nokkurn tímann sama.“