„Ef konur vilja segja: „Hey, þessi brjóst eru bara þarna“ þá skil ég það fullkomlega,“ sagði breski grínistinn Eddie Izzard á uppistandi sínu í Hörpu í gær, þegar hann var spurður álits á #FreeTheNipple-bylgjunni sem gekk yfir netheima í vikunni.
Kona úr salnum varpaði fram spurningunni og útskýrði fyrir Izzard hvers vegna íslenskar konur hefðu birt myndir af brjóstum sínum. Hann var augljóslega ánægður með framtakið og sagðist skilja vel hvers vegna þær tækju þátt í byltingunni.
„Þetta er áhugaverður punktur því ef þið þekkið líffræði þá vitið þið að við erum öll stelpur þar til móðirin er gengin 12 vikur á leið, en þá verða eggjastokkarnir að eistum og snípurinn að typpi. Þetta er sami fjandans hluturinn,“ sagði hann og hélt áfram: „En við erum heltekin af mismuninum.“
Izzard er klæðskiptingur og gengur oft um málaður, í kvenmannsfötum og í háhæluðum skóm. Hann er þó gagnkynhneigður og hefur lýst því þannig að hann sé lesbía sem er fangi í karlmannslíkama. Hann þekkir það því vel hversu mikið fólk virðist hengja sig á þennan mismun.
Kom hann salnum til að hlæja þegar hann sagðist hafa heyrt sögu um það að flugvél full af brjóstahöldurum hefði hrapað í frumskógi og eftir það hefðu konur farið að ganga í þeim til að hylja brjóst sín. Konur í ættbálkum hefðu alltaf gengið um berbrjósta fyrir „flugslysið“ en eftir það hefðu brjóst skyndilega orðið kynferðisleg.
„Við gerum hluti eins og brjóst kynferðisleg og hyljum þau, sem er skrítinn hlutur,“ sagði hann, og hvatti konurnar í salnum til að taka þátt í brjóstabyltingunni við mikinn fögnuð viðstaddra.