Áhyggjur af kynjuðum útlitsstöðlum

Ungmennaráðstefna UMFÍ, Ungt fólk og lýðræði, haldin í Stykkishólmi 25.-27. mars, skorar á  sveitarfélög að leita meira til ungmenna og taka tillit til þeirra skoðana á málefnum samfélagsins, einkum þeim er varða ungmennin sjálf. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á ráðstefnunni. 

Að þessu sinni sóttu um áttatíu einstaklingar ráðstefnuna, bæði ungmenni sem starfa í ungmennaráðum víðsvegar um landið og starfsmenn sem sjá um málefni ungmenna í sínu sveitafélagi.

Titill ráðstefnunnar var „Margur verður af aurum api” með það að markmiði að fræða og skapa umræðu um skyldur og réttindi ungs fólks í atvinnulífinu.

„Við skorum á atvinnurekendur að standa vörð um réttindi starfsmanna sinna og þá sérstaklega ungs fólks. Mikilvægt er að báðir aðilar séu meðvitaðir um réttindi og skyldur sínar. Þegar ráðstefnugestir fóru að bera saman bækur sínar kom í ljós að allt of algengt er að brotið sé á ungu fólki sem er að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Þetta má að vissu leyti rekja til vanþekkingar og þarfar á meiri fræðslu. Því skorum við á stéttafélög að koma til móts við þessa þörf og auka fræðslu til beggja aðila, atvinnurekenda og starfsmanna,“ segir í ályktuninni.

Þátttaka á ráðstefnunni var bundin því skilyrði að hafa lokið námskeiði hjá VR-skóla lífsins. Það námskeið fór fram á netinu og veitir grunnskilning á reglum og hefðum atvinnulífsins og undirbýr fyrir verklegan hluta sem fram fór á ráðstefnunni undir handleiðslu þjálfara frá Dale Carnegie. „Slík fræðsla er gríðarlega mikilvæg og ætti að vera lögð áhersla á að hún fari skipulega fram í efri bekkjum grunnskóla samhliða öðrum grunnþáttum í fjármálalæsi,“ segir í ályktuninni.

„Ungt fólk á ráðstefnunni vill koma á framfæri áhyggjum sínum af kynjuðum útlitsstöðlum sem ítrekað gera vart við sig innan hinna ýmsu greina atvinnulífsins. Það er ekki eðlilegt að umsækjendur að starfi séu metnir vegna kyns eða útlits umfram raunverulegrar getu til að sinna því starfi sem sótt er um.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka