Heilmikil vinna framundan

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis.
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis. mbl.is/Styrmir Kári

Frumvörp Sigurðar Inga Jóhannssonar um veiðigjöld og makríl voru afgreidd úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins í dag. Jón Gunnarsson, þingmaður flokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir að heilmikil vinna sé framundan hjá atvinnuveganefndinni að fara yfir frumvörpin.

Ríkisstjórnin samþykkti frumvörpin á fundi sínum í fyrr í dag. Samkvæmt þeim á viðbótarveiðigjald á makríl að skila ríkissjóði einum og hálfum milljarða króna á ári næstu sex árin og mun veiðigjaldið hækka um rúman milljarð króna frá því í fyrra.

Jón segir í samtali við mbl.is að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi fengið heldur stuttan tíma til að skoða frumvörpin.

„Það liggur í hlutarins eðli að þegar frumvörpin koma til þingsins strax eftir páska, þá hefst vinna nefndarinnar við að meta áhrif þessara frumvarpa á atvinnugreinina. Það er auðvitað markmið beggja stjórnarflokka að vera ekki með íþyngjandi veiðigjöld, heldur að hafa þau þannig að greinin geti áfram dafnað og vaxið og skilað góðu fyrir þjóðarbúið,“ segir hann.

„Við eigum eftir að fara yfir þá útreikninga og það sem liggur á bak við frumvörpin. Þetta er auðvitað nokkur breyting, sérstaklega hvað varðar makrílinn, og við þurfum að fara yfir forsendur frumvarpanna, afla okkur upplýsinga og meta stöðuna út frá því,“ bætir Jón Gunnarsson við.

Frétt mbl.is: Veiðigjöld hækka um rúman milljarð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka