Ung kona frá Hong Kong lést í umferðarslysi á þjóðvegi 1 í Eldhrauni um tíu leytið síðastliðinn föstudag. Konan var farþegi í jepplingi sem ferðafélagi hennar ók í austur að Kirkjubæjarklaustri.
Ökumaður virðist hafa misst stjórn á bifreiðinni í krapa og hálku með þeim afleiðingum að bifreiðin fór útaf veginum og valt. Farþeginn lenti undir bifreiðinni og mun hafa látist samstundis. Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi rannsakar slysið og nýtur til þess aðstoðar ýmissa sérfræðinga.
Harður árekstur tveggja bifreiða varð síðdegis á föstudag á Biskupstungnabraut skammt sunnan við Reykholt. Þar hafði fólksbifreið verið snúið við á þjóðveginum við afleggjara að sveitabæ og í veg fyrir pallbifreið sem hafði verið ekið á eftir fólksbifreiðinni.
Farþegi í fólksbifreiðinni var fluttur talsvert slasaður með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala. Fimm aðrir voru fluttir á heilsugæslustöð með minni háttar áverka. Auk lögreglu og sjúkraflutningamanna voru mættir á staðinn björgunarsveitarmenn frá Flúðum sem eru með vettvangshjálparhóp sem er kallaður til þegar alvarleg slys og bráðaveikindi verða í uppsveitum Árnessýslu. Að mati lögreglu hefur verið góð reynsla af þessu fyrirkomulagi, að því er segir á Facebooksíðu lögreglunnar á Suðurlandi.
Eldri kona ökklabrotnaði þegar hún datt í hálku við Gullfoss síðastliðinn fimmtudag. Hún var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild.