„Mikilvægt skref í rétta átt“

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. mbl.is/Eggert

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að húsnæðisfrumvörpin fjögur, sem hún hyggst leggja fram á þingi, séu mikilvægt skref í rétta átt til að greiða úr þeim vanda sem hefur ríkt á húsnæðismarkaði. Þau bæði skerpi á og bæti réttarstöðu leigjenda og leigusala. Sumt geti orðið umdeilt hjá fyrrnefnda hópnum, en annað hjá þeim síðarnefnda.

Eygló kynnti fjögur frumvörp um húsnæðismál fyrir ríkisstjórninni í dag. Tvö þeirra voru afgreidd. Annað snýr að endurskoðun á lögunum um húsnæðissamvinnufélög og hitt að breytingu á húsaleigulögunum.

Hin frumvörpin tvö, um stofnkostnað vegna félagslegs leiguhúsnæðis og húsnæðisbætur, voru ekki afgreidd á ríkisstjórnarfundinum, en þau eru enn í kostnaðarmati hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. 

Í samtali við mbl.is segir Eygló að þau frumvörp tvö verði vonandi afgreidd úr ríkisstjórninni sem fyrst. Frestur til að leggja fram ný þingmál, sem eiga að komast á dagskrá fyrir sumarhlé, rennur út á morgun. 

„Ég er sannfærð um að þingið sé tilbúið að taka málin til meðferð með afbrigðum ef það bregst og fjármálaráðuneytið þarf meiri tíma til að fara yfir kostnaðarmatið,“ segir Eygló.

Hún segist jafnframt bjartsýn á að þingið afgreiði þessi mál fyrir þingfrestun. Um afar þýðingarmikil mál séu að ræða sem verði að samþykkja fyrir sumarfrí. Hún hefur áður sagt að náist það ekki, þá verði að halda sumarþing.

Verið að nútímavæða lögin

Frumvarpinu um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög er ætlað að auðvelda slíkum félögum að starfa hér á landi. Verður það gert með því að stuðla að sjálfbærum rekstri félaganna á sama tíma og þeim sjálfum verði falið ákvörðunarvald um ýmis atriði sem hafa áhrif á rekstur félaganna.

Eygló segir að verið sé að nútímavæða lögin. Breytingarnar séu í takt við þær breytingar sem hafa verið gerðar á Norðurlöndunum með mjög góðum árangri. 

Komi til móts við fólk á leigumarkaði

Aðspurð hvort komi til greina að veita þeim sem eru að kaupa sitt fyrsta húsnæði skattaívilnanir segir hún svo vera. Hún vísaði jafnframt til þess að heimildin til að nota séreignarsparnað væri þess eðlis.

Sú heimild er hluti af ráðstöfunum ríkisstjórninnar til leiðréttingar á húsnæðisskuldum heimilanna. Um er að ræða skattfrjáls úrræði, tímabundin fram til sumarsins 2017, þar sem fjölskyldum gefst kostur á að ráðstafa séreignarsparnaði inn á veðlán vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Eygló sagði það vera sérstaklega mikilvægt að komið væri til móts við fólk á leigumarkaði sem vill komast í eigið hús. Kannanir sýndu að það væri það sem fólk vill.

Frétt mbl.is: Tvö frumvörp Eyglóar samþykkt

mbl.is/Sigurður Bog
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert