Tvö frumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, af þeim fjórum sem rædd voru í ríkisstjórn í dag, voru samþykkt. Hin tvö eru að sögn Eyglóar enn í kostnaðarmati. Frumvörpin fjalla um húsnæðismál. Þau frumvörp sem samþykkt voru á fundinum eru frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum og frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög.
Eygló svaraði því ekki hvort að frumvörpin tvö verði lögð fram fyrir mánaðamót en þá rennur út formlegur frestur til að leggja fram frumvörp á Alþingi á þessu þingi.
Ríkisstjórnarfundur hófst kl. 11 í morgun og lauk á fjórða tímanum. Veiðigjaldafrumvarp sjávarútvegsráðherra var einnig til umræðu á fundinum. Meðal þess sem var í drögum að frumvarpinu var að lagt verði viðbótarveiðigjald á makríl, 10 krónur á kíló. Það mun skila ríkissjóði aukalega 1,5 milljörðum króna miðað við 150.000 tonna makrílkvóta. Verði sú raunin verður veiðigjald á makríl hærra en á þorski.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra sagði er hann kom út af ríkisstjórnarfundi á fjórða tímanum að stefnt væri að því að leggja frumvarpið fram á þessu þingi. Hann vildi ekki tjá sig frekar fyrr en að loknum þingflokksfundi Framsóknarflokksins.
Í frétt RÚV um frumvörpin fjögur sem Eygló hyggst leggja fram á þingi kemur fram að þau fjalli um stofnstyrki, húsnæðisbætur, breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög og breytingu á húsnæðisleigulögum.