Ísland gerist stofnaðili að nýjum banka

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í dag að Ísland óskaði eftir að gerast stofnaðili að nýjum fjárfestingabanka fyrir Asíu (Asian Infrastructure Investment Bank, AIIB) sem er í burðarliðnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Þar segir einnig að fjölmörg ríki, þar með talin flest Evrópuríki, hafi ákveðið að vinna að undirbúningi stofnunar bankans ásamt ríkjum Asíu en fyrir liggur að höfuðstöðvar bankans verða í Peking. Ekki liggur fyrir hvert stofnframlag einstakra ríkja verður en gert er ráð fyrir að heildarstofnfé bankans nemi allt að 100 milljörðum bandaríkjadala.

„Það er mat ríkisstjórnarinnar að aðild að AIIB muni styrkja enn frekar góð samskipti Íslands og Asíuríkja og styðja við nýja vaxtarbrodda á viðskiptasviðinu. Áhugi ríkja heims á því að lána fé til uppbyggingar innviða í Asíu tengist ekki síst sívaxandi alþjóðavæðingu efnahagskerfa veraldar.

Asía er sá hluti efnahagskerfis heimsins sem vex hvað hraðast. Fyrir liggur að í álfunni hefur og mun eiga sér stað gríðarleg uppbygging samgöngukerfa, orkukerfa, fjarskiptakerfa o. fl. Starfsemi AIIB mun styðja við starfsemi fjölþjóðlegra fjármálastofnana sem þegar sinna þróun og fjármögnun innviðauppbyggingar, svo sem Alþjóðbankans og Þróunarbanka Asíu.

Nú taka við samningaviðræður milli stofnaðila um endanlega stofnsetningu bankans en markmiðið er að þeim ljúki fyrir árslok,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert