Hefur áhrif á umræðuna

Í kjölfar harmleiksins hefur mikið verið gert úr andlegum veikindum …
Í kjölfar harmleiksins hefur mikið verið gert úr andlegum veikindum flugmannsins, Andreas Lubitz. AFP

Vangaveltur þess efnis að flugmaðurinn sem grandaði vél Germanwings í frönsku Ölpunum  hafi þjáðst af þunglyndi og sjálfsmorðshugleiðingum hafa tvímælalaust áhrif á umræðuna um geðsjúkdóma og byggja jafnvel á fordómum, ef marka má formann Geðhjálpar.

Hrannar Jónsson segir áhyggjuefni að orðið „þunglyndi“ sé dregið fram til skýringar á hinu og þessu.

„Það eru nánast engar líkur á því að einhver sem þjáist af vægu eða meðalþunglyndi eða kvíða sé í sjálfsvígshugleiðingum eða það renni á hann eitthvert morðæði, að öðru óbreyttu. Þetta hefur verið töluvert mikið rannsakað,“ segir Hrannar.

Hann segir hins vegar vitað að ákveðin þunglyndislyf geti valdið því að það leiti á fólk hugsanir um að skaða sig eða aðra. Þörf sé á frekari rannsóknum á aukaverkunum geðlyfja og þeim áhrifum sem það getur haft á fólk að hefja og hætta inntöku þeirra.

Hrannar segir fordómafullt að gefa út yfirlýsingar um veikindi flugmannsins áður en frekari upplýsingar liggja fyrir. „Það eru alls konar atvik í lífi fólks sem geta ýtt undir skaðlega hegðun gagnvart því sjálfu og öðrum, og það eru miklu líklegri áhættuþættir en þunglyndi eða eitthvað slíkt,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert