Vilja fríverslunarsamning við ASEAN

Fimm þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem kallað er eftir því að ríkisstjórninni verði falið að beita sér fyrir að Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) hefji viðræður um fríverslun við Samtök ríkja í Suðaustur-Asíu (ASEAN).

Ríkin eru Singapúr, Filippseyjar, Indónesía, Búrma, Taíland, Víetnam, Malasía, Kamódía, Laos og Brunei. EFTA er þegar með fríverslunarsamning við Singapúr. Fyrsti flutningsmaður tillögunnrar er Össur Skarphéðinsson.

Fram kemur í greinargerð að þingsályktunartillagan feli ríkisstjórninni að taka frumkvæði að því að EFTA leiti samninga um fríverslun við ASEAN í heild í stað þess að leitað verði tvíhliða samninga við hvert einstakt ríki innan samtakanna. Bent er á að spár bendi til einna örastar mannfjölgunar í heiminum á næstu áratugum í löndum ASEAN. Þrjú þeirra séu á meðal stærstu þjóða Asíu. Þá búi aðildarþjóðirnar yfir margvíslegum auðlindum.

„Viðskipti milli Íslands og ASEAN-ríkjanna fara vaxandi en eru að sönnu ekki mikil í dag. Svæðið gæti í framtíðinni þróast í ágætan markað fyrir ýmsar íslenskar vörur ef akurinn er rétt plægður, og snemma. Sjávarfang er hefðbundin neysluvara og öflugt markaðsstarf og þróun heppilegra flutningaleiða gæti stutt við útflutning á sjávarafurðum héðan,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka