Engin moska án erlends fjármagns

Ibrahim Sverrir Agnarsson, formaður Félags Múslima.
Ibrahim Sverrir Agnarsson, formaður Félags Múslima. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

„Hvað á ég að segja. Fyrir mér er þetta sami söngurinn og alltaf. Áður var það: ég er ekkert á móti mosku bara ekki á þessum stað, og nú er það: ég er ekkert á móti mosku bara ekki með þessum peningum,“ segir Ibrahim Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima.

Í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir það fráleita hugmynd að Sádi-Arabía fengi að setja fjármagn í byggingu mosku í Reykjavík. „Til að reyna að sporna við því að róttækur íslamismi berist til okkar ættum við ekki að heimila að erlendir aðilar fjármagni moskubygginguna,“ segir Ingibjörg Sólrún í viðtalinu.

Ibrahim Sverrir ítrekar þá afstöðu Félags múslima að þiggja ekki neinar gjafir sem fylgja skilyrði eða kvaðir. Hann segir vinnu við fjármögnun moskunnar enn vera á grunnstigi og að félagið hafi meðal annars leitað til múslima í London eftir styrkjum. „Það verður engin moska byggð ef við megum ekki taka við peningum erlendis frá, það er bara þannig,“ segir hann um hugmyndir Ingibjargar. „Þetta er bara ein röddin enn sem vill banna mosku á Íslandi.“

Ibrahim segist ekki telja að á því sé eðlismunur sé á erlendri fjárveitingu til Félags múslima eða kristnum söfnuðum. „Það þarf enginn að segja mér að kaþólska batteríið sé rekið á innlendum peningum. Og rússneska rétttrúnaðarkirkjan telur einhverja 300 til 400 meðlimi, þeir eru örugglega líka að bíða eftir einhverjum peningi erlendis frá,“ segir hann og bendir jafnframt á að Menningarsetur múslima hafi fengið fjármagn frá Svíþjóð.

„Mér finnst þetta vera einhver stormur í vatnsglasi og ég skil ekki afhverju Ingibjörg þarf að blanda sér í þetta.“

Peningur frá frúnni í Hamborg

Eins og áður hefur verið greint frá tjáði sendiherra Sádí Arabíu forseta Íslands í mars að ríkið hyggðist styrkja byggingu mosku í Reykjavík um 135 milljónir íslenskra króna. Ibrahim Sverrir segir Félag múslima ekki hafa fengið neinar frekari upplýsingar um hvort gjöfin sé ætluð þeim.

„Þetta er svolítið eins og að ræða um peninga frá frúnni í Hamborg, það hefur enginn boðist til að gefa okkur pening,“ segir Ibrahim. „Mér skilst hinsvegar.að [Menningarsetur múslima] hafi fengið 1200 þúsund dollara og keypt Ýmishúsið fyrir þann pening svo það er í raun búið að kaupa mosku á Íslandi fyrir þennan pening sem verið er að tala um.“

Inntur eftir því hvort það fjármagn sé það sama og sendiherra Sádí Arabíu ræddi um segir Ibrahim að hann viti það ekki og að það viti það í raun enginn.

Fleiri nunnur en blæjur

Í fyrrnefndu viðtali segir Ingibjörg einnig að setja þurfi í lög eða lögreglusamþykkt ákvæði sem banna fólki að hylja andlit sitt á opinberum vettvangi og að þá gildi einu hvort það eru íslenskir karlar með lambhúshettur eða konur í búrku.

„Í okkar samfélagi, okkar menningarheimi, þá þurfum við að geta séð framan í fólk til að geta áttað okkur á einstaklingnum og lesið í andlitstjáninguna. Þegar konur hylja andlit sitt á opinberum vettvangi gerist það um leið að þær hætta að vera einstaklingar og eru einungis til sem hluti af fjölskyldu, og hér um bil eign fjölskyldunnar eins og raunin er með margar afganskar konur,“ segir Ingibjörg.

Ibrahim segist vera sammála Ingibjörgu enda ætti í raun, samkvæmt íslamstrú, að banna andlitsblæjur.

 „Ég sé samt ekki vandamálið. Þegar búrkurnar voru bannaðar í Tyrklandi voru það innan við 300 konur sem gengu í búrku. Múslimskir íbúar Frakklands eru um 6 prósent þjóðarinnar svo þetta er mikið lægra hlutfall en hlutfall kvenna sem ganga í nunnubúningi í landinu, sem ekki þykir sérlega kvenvinsamlegur.“

Hann segist ekki þekkja til þess að nein kona á Íslandi gangi með blæju fyrir andlitinu og að siðurinn sé í raun hverfandi þó hann sé enn við lýði. „Það er t.d. bannað fyrir konur að hylja andlit sitt þegar þær koma til Mekka, það segir manni kannski eitthvað.“

Ingibjörg Sólrún með nemendum sem útskrifast höfðu úr námi í …
Ingibjörg Sólrún með nemendum sem útskrifast höfðu úr námi í ensku og tölvunotkun sem UN Women bauð upp á í nokkrum héruðum Afganistan.
Afgönsk kona, íklædd búrku.
Afgönsk kona, íklædd búrku. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert