51% vildi ekki draga umsókn til baka

AFP

Um 39% þeirra sem taka afstöðu í Þjóðarpúlsi Gallup eru hlynnt því að draga til baka umsóknaraðild Íslands að Evrópusambandinu en 51% er andvígt því. Einn af hverjum tíu segist hvorki hlynntur né andvígur því.

Fólk hefur tilhneigingu til að vera hlynntara því að draga umsóknina til baka eftir því sem það er eldra. Íbúar landsbyggðarinnar eru hlynntari því að umsóknin sé dregin til baka en íbúar höfuðborgarsvæðisins.

Átti að ræða á Alþingi?

Þeir sem hafa háskólamenntun eru síður hlynntir því að umsóknin sé dregin til baka en þeir sem hafa minni menntun að baki. Þeir sem styðja ríkisstjórnina og þeir sem myndu kjósa ríkisstjórnarflokkana ef kosið yrði til Alþingis í dag eru hlynntari því að draga umsóknina til baka en þeir sem styðja ekki ríkisstjórnina og þeir sem myndu kjósa aðra flokka en stjórnarflokkana.

Ríkisstjórn Íslands lítur svo á að Ísland sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja að Evrópusambandinu og utanríkisráðherra hefur farið þess á leit við sambandið að það taki mið af því hér eftir. Aðspurð sögðust 73% þeirra sem tóku afstöðu telja að ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefði átt að ræða á Alþingi áður en ESB var tilkynnt um hana en 27% telja að ekki hafi verið þörf á að ræða ákvörðunina á Alþingi.

Spurt var: Ríkisstjórn Íslands lítur svo á að Ísland sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja að Evrópusambandinu og utanríkisráðherra Íslands hefur farið þess á leit við sambandið að það taki mið af því hér eftir. Hvor eftirfarandi fullyrðinga er nær þinni skoðun?

  • Ég tel að það hefði átt að ræða ákvörðun ríkisstjórnarinnar á Alþingi áður en ESB var tilkynnt um hana
  • Ég tel að ekki hafi verið þörf á að ræða ákvörðun ríkisstjórnarinnar á Alþingi áður en ESB var tilkynnt um hana

Konur telja frekar en karlar að ræða hefði átt ákvörðunina á þingi. Ungt fólk telur frekar að ræða hefði átt ákvörðunina en þeir sem eldri eru, og frekar þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu en íbúar landsbyggðarinnar. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi telja frekar að ákvörðunina hefði átt að ræða en þeir sem hafa minni menntun að baki. Þeir sem styðja ríkisstjórnina og þeir sem myndu kjósa ríkisstjórnarflokkana telja síður að ræða hefði átt ákvörðunina á þingi en þeir sem styðja ekki stjórnina og þeir sem myndu kjósa aðra flokka. Þeir sem eru andvígir því að draga aðildarumsóknina til baka telja frekar að það hefði átt að ræða ákvörðunina en þeir sem eru hlynntir því að draga hana til baka, og þeir sem eru hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna telja frekar að það hefði átt að ræða ákvörðunina en þeir sem eru andvígir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu

Stjórnarandstaðan hefur lagt fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Um 65% þeirra sem tóku afstöðu eru hlynnt þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB en 24% andvíg, á meðan 12% sögðust hvorki hlynnt né andvíg. Þetta eru ívið færri en voru hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu þegar spurt var fyrir ári.

Spurt var: Stjórnarandstaðan hefur lagt fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB?

Yngra fólk er almennt hlynntara þjóðaratkvæðagreiðslu en þeir sem eldri eru, og íbúar höfuðborgarsvæðisins hlynntari henni en íbúar landsbyggðarinnar. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi eru einnig hlynntari atkvæðagreiðslu en þeir sem hafa minni menntun að baki. Þeir sem styðja ríkisstjórnina og þeir sem myndu kjósa stjórnarflokkana ef kosið yrði til Alþingis í dag eru aftur á móti síður hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna en þeir sem styðja ekki ríkisstjórnina og þeir sem myndu kjósa aðra flokka. Loks eru þeir sem eru
andvígir því að draga aðildarumsókn Íslands til baka hlynntari þjóðaratkvæðagreiðslu
heldur en þeir sem eru hlynntir því að draga umsóknina til baka.

Um könnunina

Niðurstöðurnar voru fengnar úr netkönnun sem gerð var dagana 19.-25. mars 2015. Þátttökuhlutfall var 60,8%, úrtaksstærð 1.450 einstaklingar. Einstaklingarnir voru 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallup.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert