Félagsvísindasvið Háskóla Íslands hyggst ekki afhenda skýrslu sem varðar vinnuumhverfi viðskiptafræðideildar háskólans, þrátt fyrir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi úrskurðað svo að háskólanum beri að afhenda hana.
Þess í stað hefur verið ákvæðið af hálfu háskólans að höfða mál til að freista þess að fá hnekkt úrskurði úrskurðarnefndarinnar.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félagsvísindasviði HÍ.
Á haustmánuðum 2013 fékk félagsvísindasvið Háskóla Íslands Líf og sál sálfræðistofu til að gera vinnustaðagreiningu innan viðskiptafræðideildar skólans. Tilgangurinn var að greina samskipti innan deildarinnar og gera tillögur um aðgerðir. Greiningunni var skilað í nóvember 2013 og strax ráðist í þær aðgerðir sem þar voru lagðar til.
Í framhaldi af kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur nefndin úrskurðað að háskólanum beri að afhenda þessa skýrslu. Því getur Félagsvísindasvið ekki unað.
„Vinnustaðagreiningar sem þessi hafa reynst opinberum stofnunum vel við að leysa ýmis mál sem tengjast starfsumhverfi og byggja upp viðkomandi starfsemi til framtíðar. Til að slíkar greiningar komi að gagni er trúnaður lykilatriði. Starfsmenn verða að geta tjáð sig opinskátt um það sem þeir telja að betur megi fara á vinnustaðnum án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hver fái aðgang að upplýsingunum eða hvernig þær verði notaðar.
Af hálfu Lífs og sálar ehf. var lögð áhersla á að um skýrsluna ríkti trúnaður enda voru viðtöl við starfsmenn tekin í trúnaði. Var skýrslan því sérstaklega merkt sem trúnaðarmál og fengu þeir starfsmenn sem rætt var við ekki aðgang að henni heldur aðeins yfirstjórnendur. Það væri því sérkennileg aðstaða ef túlkun laga væri þannig að aðilar utan Háskóla Íslands ættu rétt á að fá aðgang að þessari skýrslu en ekki þeir starfsmenn innan háskólans sem rætt var við. Vinnustaðagreiningar sem þessi yrðu gagnslaus verkfæri ef trúnaður ríkti ekki um samtöl við einstaklinga og niðurstöðurnar í heild,“ segir í yfirlýsingunni.
Félagsvísindasvið telur þess vegna mikilvægt að fá endanlega úr því skorið hvort afhenda þurfi slík gögn. Lög gera ráð fyrir að leyst verði úr málum sem þessum fyrir dómstólum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur samþykkt að fresta réttaráhrifum úrskurðar síns um afhendingu skýrslunnar með því skilyrði að háskólinn beri málið undir dómstóla og óski eftir flýtimeðferð. Af hálfu Háskóla Íslands hefur því verið ákveðið að höfða mál til að freista þess að fá hnekkt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál um afhendingu skýrslunnar, að því er fram kemur í yfirlýsingunni sem Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs, skrifar undir.