„Þeir sem nenna geta fundið skemmtilegar atkvæðagreiðslur þar sem Bjarni Ben kýs óvart vitlaust og ráðherrarnir hinir fylgja og allir stjórnarþingmennirnir með. Svo leiðréttir hann atkvæðið og allir fylgja.“
Þetta segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, á Facebook-síðu sinni en þar bregst hann við gagnrýni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Pírata vegna hjásetu þeirra. Eins og mbl.is fjallaði um á laugardaginn hafa þingmenn Pírata setið hjá í meirihluta þeirra atkvæðagreiðslna sem þeir hafa verið viðstaddir í þinginu. Jón Þór hefur setið hjá í 2/3 þeirra. Hann hefur gefið þá skýringu að hann greiði ekki atkvæði nema hann viti um hvað málið snýst.
Bjarni sagði á Facebook-síðu sinni í gær að Birgitta Jónsdóttir og aðrir þingmenn Pírata væru í sömu stöðu og aðrir þingmenn hvað varðaði fjölda mála sem þyrfti að kynna sér. Fjöldi mála væri lítill á Alþingi miðað við þing í öðrum löndum. Hann gaf því lítið fyrir þær skýringar að fjöldi mála þýddi að Píratar gætu ekki sett sig inn í þau öll.
„Sérlega skemmtilegt er þegar Bjarni kýs með máli, heldur svo að hann hafi kosið vitlaust og fer af græna á rauða takkann, bara til að átta sig á því að hann átti að vera á græna og að allir stjórnarþingmennirnir fylgdu með svo atkvæðataflan lítur út eins og blikandi jólaljós, rauð og græn. Sönn saga af Alþingi,“ segir Jón Þór ennfremur á Facebook.
Fréttir mbl.is: