Veikindi urðu þess valdandi að Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gat ekki verið viðstödd fjölmargar atkvæðagreiðslur við lok annarrar umræðu um fjárlögin og fleiri mál um miðjan desember.
Þetta segir Elín í viðtali við mbl.is að sé meginskýringin á því að hún er á lista yfir þá tíu þingmenn sem mest hafa verið fjarverandi við atkvæðagreiðslur á Alþingi á yfirstandandi þingi sem mbl.is birti meðal annars um helgina. Þar kom fram að Elín hefði verið fjarverandi við 31% atkvæðagreiðslna án tilkynntra forfalla.
Elín segir að hún hafi tilkynnt veikindin til bæði þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóra þingflokksins og talið að þar með væri öllum skilyrðum fullnægt til þess að teljast forfölluð. Þær upplýsingar hafi hins vegar ekki skilað sér til skrifstofu þingsins. Þetta skekki tölfræðina í hennar tilfelli sem henni þyki miður þar sem hún leggi mikla áherslu á að taka þátt í öllum atkvæðagreiðslum.
Fréttir mbl.is:
Segir Bjarna Ben hafa óvart kosið vitlaust
„Hún er í sömu stöðu og aðrir“
Hafa í flestum tilfellum setið hjá