Vél Icelandair varð fyrir eldingu

mbl.is/Þórður

„Það var hávær hvellur, mjög hávær, og bjart ljós.“

Svona lýsir farþeginn Nathen Maxwell fyrir bandaríska miðlinum The Gazette hvað gerðist þegar eldingu laust niður í flugvél Icelandair á leið til Denver í gær. Að sögn The Gazette átti atvikið sér stað skömmu eftir flugtak frá Keflavík.

„Ég hélt að við myndum líklega þurfa að nauðlenda eða snúa við, taka krók eða eitthvað,“ segir Maxwell en sú var ekki raunin. Stuttu eftir að atvikið staðfesti flugstjórinn við farþega að vélin hefði orðið fyrir eldingu en fullvissaði þá jafnframt um að engin hætta væri á ferðum.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir eldingum slá niður í flugvélar annað slagið en mun oftar erlendis en hér á landi. „Vélarnar eru gerðar til þess að taka við eldingum og þegar þetta gerist fer auðvitað í gang ákveðin skoðun hjá áhöfninni. Ef ekkert amar að vélinni er flogið áfram,“ segir Guðjón sem tekur skýrt fram að engin ástæða sé til að óttast eldingar sérstaklega í flugi.

Hann segir að við lendingu hafi skrokkurinn verið skoðaður og að þá hafi komið í ljós gat fremst á vélinni. Gatið hafði engin áhrif á stjórn vélarinnar eða flugið sjálft að sögn Guðjóns en var þó lagað áður en haldið var aftur til Íslands. 

Er þetta í annað skiptið á innan við hálfu ári sem vél Icelandair verður fyrir eldingu en eldingu sló niður í vél flugfélagsins í aðflugi til Billund í Danmörku í desember síðastliðnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert