Á ekki að koma Rússum á óvart

Gunnar Bragi telur ekki að yfirlýsingin muni hafa áhrif á …
Gunnar Bragi telur ekki að yfirlýsingin muni hafa áhrif á samskipti Íslands og Rússlands. mbl.is/Eggert

Ráðherrar varnarmála á Norðurlöndunum sendu í dag frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að Norðurlöndin muni auka samvinnu sína á sviði öryggis- og varnarmála. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra Íslands, segir ráðherrana vera að bregðast við nýju umhverfi í öryggismálum í álfunni sem og í heiminum.

Hann segir þátt Íslands í raun aldrei snúa beint að hernaðarstarfi heldur komi Ísland að mannúðarþáttum eða borgaralegum verkefnum sem tengjast varnarviðbúnaði.

„Það er ekki gert ráð fyrir að aðkoma Íslands verði með einhverjum öðrum hætti en verið hefur fram að þessu. Þetta hinsvegar opnar á tækifæri fyrir okkur að taka þátt í einhverskonar æfingum eða á vettvangi einhversstaðar,“ segir Gunnar Bragi. Hann segir Ísland þó spila nokkuð stórt hlutverk vegna þess viðbúnaðar sem sé stöðugt í gangi hér á landi á vegum landhelgisgæslunnar.

Frétt mbl.is: Norðurlönd verjast Rússum í sameiningu

Yfirlýsingin er harðorð í garð Rússlands og nefnir aukna ógn af Rússum sem helstu ástæðu þess að Norðurlöndin þurfi að vinna saman að varnarmálum. Gunnar Bragi telur ekki að yfirlýsingin muni hafa áhrif á samskipti Íslands og Rússlands og segir rússnesk yfirvöld hafa kallað fram þessi viðbrögð.

„Það á ekki að koma Rússum neitt á óvart að Ísland staðsetji sig í hópi Norðurlandanna þegar kemur að þessum málum eins og öðrum,“ segir hann.

„Við höfum átt í ágætu sambandi við Rússa í yfir 70 ár og verið lungann úr þeim tíma aðilar að Atlantshafsbandalaginu og tekið þátt í margskonar aðgerðum með NATO og Evrópuríkjum. Þeir atburðir sem hafa átt sér stað á Krímskaga og í Úkraínu kalla vitanlega fram viðbrögð við breyttu öryggisumhverfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert