Karlmaður sem slasaðist alvarlega í bílveltu á Biskupstungnabraut í gærkvöldi er látinn. Maðurinn, sem var á þrítugsaldri, var farþegi í bílnum sem valt. Mikil hálka var á veginum og þegar bíllinn valt mun maðurinn hafa kastast út úr honum og lent undir.
Maðurinn var Evrópubúi, búsettur hér á landi, en lögregla hyggst ekki gefa frekari upplýsingar um manninn fyrr en viðeigandi ræðismanni hefur verið gert viðvart.
Sex voru í bílnum sem valt. Fjórir slösuðust lítið en tveir alvarlega og voru þeir fluttir á sjúkrahús í Reykjavík. Hinn maðurinn sem slasaðist mun ekki vera í lífshættu.
Frétt mbl.is: Tveir alvarlega slasaðir í bílveltu.