Hafist verður handa um dýpkunarframkvæmdir við Landeyjahöfn á næstu dögum eða strax þegar veður leyfir.
Höfnin hefur verið lokuð frá haustdögum, en nú þegar vetrarveður eru að ganga niður og vor í nánd er kostað kapps um að opna höfnina svo Herjólfur geti siglt þangað inn.
Ferjubáturinn Víkingur sem Sigurmundur Einarsson gerir út hefur hins vegar komist í höfnina með því að sjávarföllum er sætt. Í fyrra opnaðist Landeyjahöfn í lok febrúar, en þá þurfti að dæla út 70 þúsund rúmmetrum af sandi svo hún yrði fær. Var sandurinn þá bæði í höfninni sjálfri og á rifi úti fyrir kjafti hennar.