Magnús Ver Magnússon kraftlyftingamaður hefur höfðað skaðabótamál gegn íslenska ríkinu en lögreglan grunaði hann um stórfelldan fíkniefnainnflutning og fylgdist með honum í langan tíma án vitneskju Magnúsar. Það var ekki fyrr en lögregla tilkynnti honum símleiðis í ágúst í fyrra að rannsóknin hafi ekki skilað árangri en í þrjú ár hafði verið fylgst með honum og fjölskyldu hans. Meðal annars var sími hans hleraður. Eftirfarar-búnaði var komið fyrir í bifreið hans sem og var settur hlustunarbúnaður í bifreið hans. Eins var sími dóttur Magnúsar hleraður um tíma.
Fyrirtaka er í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur síðar í dag en Magnús Ver fer fram á að fá greiddar 10 milljónir króna í skaðabætur fyrir ólögmæta meingerð.
Samkvæmt upplýsingum frá lögfræðingi Magnúsar, Ólafi Karli Eyjólfssyni héraðsdómslögmanni hjá ÓK-lögmönnum, var fylgst með Magnúsi frá janúar 2012 til 1. október 2014, en 1. október 2014, var Ólafi Karli tilkynnt formlega um að rannsókn málsins þar sem Magnús Ver hefði réttarstöðu grunaðs, væri lokið. Magnús Ver hafði hins vegar fengið upplýsingar um málið þann 21. ágúst 2014 símleiðis um að rannsókninni væri lokið.
Ólafur Karl segir að lögreglan hafi meðal annars fengið heimild hjá héraðsdómara til að fá upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer var hringt úr og í símanúmer Magnúsar svo og önnur símanúmer og símtæki sem hann hafði í eigu sinni eða umráðum.
Magnús Ver byggir kröfu sína á því að rannsókn lögreglu hafi ekki átt rétt á sér og hafi verið tilefnislaus og án rökstudds gruns. Hann telur sig ekki hafa með nokkru móti valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.
Magnús byggir kröfuna á því að úrskurðir héraðsdómara hafi ekki verið lögum samkvæmt og aðgerðir á grundvelli þeirra ólögmætar.
Hann byggir miskabótakröfu sína á því að lögreglan og ríkissaksóknari hafi með freklegum og ósvifnum hætti brotið á grundvallar mannréttindum sínum. Ólafur Karl segir að Magnús Ver hafi ekkert gert til að kalla yfir sig þetta óréttlæti og telur að krafa um 10 milljónir króna í skaða- og miskabætur sé sanngjörn krafa sé litið til þess hversu alvarlegt brotið er og hversu mikilvæg réttindi, friðhelgi einkalífs eru, sem vernduð eru af stjórnarskránni og lögum um mannréttindasáttmála Evrópu.
Telur Magnús rétt að líta til sjónarmiða um fordæmisgildi dómsins þegar upphæð miskabóta er ákveðin, þannig að niðurstaða dómsins verði hvatning til almennings að sækja rétt sinn, sé á þeim brotið. Þá beri einnig að líta til þess þegar miskabótakrafa er ákveðin að umkrafðar miskabætur eru einnig í formi refsingar til handa íslenska ríkinu eða lögreglunnar og ríkissaksóknara. „Það er mikilvægt að senda skýr skilaboð til þeirra aðila sem beita þvingunaraðgerðum að beiting slíkra aðgerða skal ekki tekið með léttvægum hætti,“ segir Ólafur Karl, fyrir hönd Magnúsar.