Þorsteinn Ásgrímsson -
Atkvæðagreiðsla um verkfallsboðunar 16 aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins (SGS) hófst í gær, en náist ekki samningar fyrir lok mánaðarins munu verkföll skella á. Hefur félagið gefið út að í staðinn fyrir staðbundna vinnustöðvun verði farið í allsherjarverkföll. Verkföllin gætu náð til allt að einum sjötta af starfandi fólki utan höfuðborgarsvæðisins. Atkvæðagreiðslan mun standa til 20. apríl.
Aðgerðirnar munu ná til um 10 þúsund félagsmanna, en félögin sem um ræðir eru um allt land, ef frá er talið höfuðborgarsvæðið. Nær verkfallsboðunin til starfsmanna í matvæla-, þjónustu- og flutningsgreinum, byggingariðnaði og almennum iðnaði.
Mbl.is skoðar hér nánar kröfur Starfsgreinasambandsins, hvar og hvernig fyrirhugað verkfall mun hafa áhrif.
Eins og sjá má eru flestir skráðir félagsmenn á norðausturlandi, eða rétt tæplega þrjú þúsund. Á suðurlandi er fjöldinn um tvö þúsund og á vestur- og austurlandi er um tæplega 1500 manns á hvorum staðnum að ræða.
Í heild eru um 178 þúsund manns starfandi á vinnumarkaðinum hér á landi. Þar af eru 62.500 búsettir utan höfuðborgarsvæðisins. Það þýðir að ef allar verkfallsboðanirnar eru samþykktar í kosningunni þá er einn af hverjum sex sem er starfandi utan höfuðborgarsvæðisins á leið í verkfall.
Í þessum tölum er ekki talinn sá fjöldi sem er í verkfallsaðgerðum á vegum Bandalags háskólamenntaðra. Heildarfjöldi þeirra sem eru í verkfalli hjá BHM er um 3000 í dag, en um er að ræða bæði starfsmenn sem eru á höfuðborgarsvæðinu og utan þess.