Lagði fram drög að skýrslu um lekamálið

Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, lagði fram drög að skýrslu um lekamálið á fundi hennar í morgun. Skýrslunni er ætlað að vera lyktir málsins af hálfu nefndarinnar. Ögmundur segir skýrsluna enn á umræðustigi og engin tímamörk hafi verið ákveðin um skil hennar.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur haft lekamálið svonefnda til skoðunar og segir Ögmundur að það hafi verið gert með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis og samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, við Alþingi.

„Við erum að fjalla um með hvaða hætti við ljúkum þessu máli frá okkar hendi. Sem formaður nefndarinnar lagði ég drög að skýrslu fyrir nefndina en þessi drög á eftir að ræða og skoða og menn vilja gaumgæfa þau betur þannig að við gefum okkur tíma til að ganga frá málinu. Þessi skýrsla er hugsuð sem lyktir í málinu af okkar hálfu, eins konar greinargerð til þingsins, “ segir Ögmundur.

Í henni verða fyrst og fremst ýmsar ábendingar sem snúa að stjórnsýslunni og Alþingi hvað varða skyldu þessu og eftirlitshlutverk. Ögmundur leggur þó áherslu á að nefndin eigi eftir að komast að niðurstöðu um hvað hún sendi frá sér vegna málsins. Ekki sé því tímabært að tala um neina efnisþætti.

„Við höfum ekki sett okkur nein tímamörk um hvenær við ætlum að ljúka þessu. Við setjum okkur þau mörk ein að við viljum vanda vel til verka,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka