Ekki er hægt að greina að sykurskatturinn sem lagður var á sætindi 1. mars 2013 og afnuminn um síðustu áramót hafi haft veruleg áhrif á neyslu þann stutta tíma sem skattheimtan stóð. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Rannsóknarseturs verslunarinnar á áhrifum sykurskatts á neyslu og tekjur ríkisins.
Skýrsla með niðurstöðum rannsóknarinnar var kynnt á fundi í dag og kynnti Árni Sverrir Hafsteinsson, sem unnið hefur skýrsluna, niðurstöðurnar og ræddi efni hennar ásamt Emil B. Karlssyni, forstöðumanni Rannsóknaseturs verslunarinnar í Háskólanum á Bifröst.
Markmið verkefnisins var að kanna hvort yfirlýst markmið með skattheimtunni hefðu náðst, en þau voru annars vegar að senda skýr skilaboð til neytenda í átt að heilsusamlegra vali matvæla og hins vegar að einfalda kerfi álagningar vörugjalda. Þá voru skoðuð viðbrögð framleiðenda og innflytjenda og tekjur ríkissjóðs af skattheimtunni.
Í niðurstöðunum kemur fram að lítil augljós áhrif hafi verið á verðlag þeirra tegunda morgunkorns, kex og gosdrykkja sem til skoðunar voru en verð mjólkurvara hækkaði strax. Þá komu áhrif á verð strásykurs seint fram. Auk þess var ekki hægt að greina áhrif sykurskattsins á magnþróun neins þeirra vöruflokka sem rannsóknin tók til, en framleiðendur söfnuðu miklum birgðum og nýttu meirihluta þess tíma sem skatturinn varði.
Þá kemur fram að neysluáhrifin hafi verið lítil þar sem áhrif sykurskattsins á verðlag skattlagðra vara voru of lítil fyrir neytendur til að taka eftir þeim í flestum tilvikum. Fáar staðkvæmar vörur féllu utan skattsins sem dró úr möguleikum neytenda til að forðast skattheimtuna. Vegna þessara takmörkuðu neysluáhrifa voru tekjur ríkisins af skattheimtunni hærri en til var stofnað, þrátt fyrir birgðasöfnun framleiðenda.
Sykurskatturinn var lagður á bæði sykur og sætuefni og féllu flestar sætar vörur undir skattinn, fyrir utan hreinan ávaxtasafa og laktósa úr innlendri hrámjólk. Í stað þess að greiða sykurskatt af magni vöru gátu innflytjendur valið að greiða sykurskatt af innihaldi sætuefna í vöru, sem var hugsað sem hvati fyrir innflytjendur og framleiðendur til að draga úr sykurmagni eða velja minna sætar vörur.
Sykurskatturinn birtist sem skattlagning á sætt bragð, ekki bara sykur. Aspartame er til að mynda tvöhundruð sinnum sætara pr. gramm en sykur og var skatturinn því tvöhundruð sinnum hærri á hvert gramm. Af þessum orsökum féllu flokkar staðkvæmra vara því gjarnan undir sykurskattinn og neytendur höfðu takmarkaða möguleika á að forðast skattheimtuna með því að velja staðkvæma vöru að því er fram kemur í niðurstöðunum.
Við rannsóknina var notast við gögn frá Nilesen sem Capacent tók saman yfir smávöruverð og magn fyrir tímabilið 9. janúar 2011 til ársloka 2014. Þar voru skoðaðar sætar vörur á móti ósætum og þær valdar vandlega eftir hvernig vörurnar féllu að skattinum. Þarna var skoðaður sykur, gosdrykkir og safar, sælgæti, morgunkorn, ís, sætt og ósætt kex og sætar og ósætar mjólkurafurðir. Jafnframt voru skoðuð tollgögn yfir innflutning á sykri, sætindum og sætuefnum og gögn frá framleiðendum, t.d. Ölgerðinni og Vífilfelli.
Í niðurstöðunum kom fram að innflytjendur hömstruðu sykur fyrir gildistöku laganna og náði það hámarki í febrúar 2013, mánuði áður en skatturinn var lagður á. Innflytjendur áttu því nægar birgðir af þessum vörum og hélst smávöruverð því undir innflutningsverði lengi vel. Þegar síðasti innflytjandi kláraði svo sínar byrgðir fór smásöluverðið yfir innflutningsverðið.
Sem dæmi voru vörugjöld á strásykur 60 krónur fyrir sykurskattinn en hækkuðu í 210 krónur. Þetta var 31,3% hækkun, en verðbreytingin samkvæmt frumvarpinu var þó 67%. Þá jókst sykurneysla um 3,3% á þessu tímabili samanborið við tímabilið á undan. Ef litið var á gosdrykki þá minnkaði bæði neyslan og verðið. Að sögn Árna Sverris er því erfitt að kenna verðbreytingu um magnbreytingu þar sem hún er í sömu átt.
Skyr hækkaði hins vegar um 9% í verði, en átti að hækka um 2,1% samkvæmt frumvarpinu. Þá hækkaði ósætt skyr um 17,8% þrátt fyrir að enginn sykurskattur hafi verið á því. Ástæðu þessa má rekja til þess að verðlagsnefnd ákveður hvert smásöluverð á ósættu skyri á að vera að sögn Árna Sverris.
„Það er eins og skatturinn hafi ekki náð að hafa nein áhrif á verðið. Við sjáum sykurskattinn illa í verði og neyslu og takmarkaðar breytingar virtust verða á neyslunni vegna skattsins,“ sagði Árni Sverrir. Þá sagði hann tekjuvöxtinn hafa átt að vera um 800 milljónir, en hann hafi verið nálægt því að vera milljarður. „Mögulega gætir þeirra áhrifa að neytendur breyttu ekki vörukörfunni sinni. Skattheimta hefði mögulega minnkað ef neytendur hefðu valið staðkvæmar vörur,“ sagði hann.
Árni benti á að mögulegt hefði verið að setja hollustu vörunnar í forgang, en ekki bragð hennar þar sem það hafi fækkað staðkvæmum vörum. Við það hefði verið búin til raunhæf staðkvæm vara.
Loks tók Emil til máls og benti á að önnur leið til að hafa áhrif á neyslustýringu væri að lækka skatt á hollari vörur. Þetta hafi verið gert árið 2002 þegar skattar voru lækkaðir á grænmeti sem var framleitt á Íslandi og það hafi skilað sér þar sem neyslan hafi margfaldast. En ekki sé þó víst að það hefði aukið tekjur ríkisins.
„En ég tel að þetta sé mjög merkileg skýrsla sem nýtist ekki bara okkur heldur mögulega öðrum löndum líka. Við vonum auðvitað að þær nýtist í framtíðinni hjá stjórnvöldum við skattlagningu, enda var þetta góð tilraun,“ sagði hann.