Þröng á þingi á varðskipinu Tý

Varðskipið Týr siglir nú með hóp 342 flóttamanna sem skipverjar björguðu úr lekum bát undan ströndum Líbíu í gær til Ítalíu. Halldór Benóný Nellett, skipherra Týs, segir þröng á þingi en flóttafólkið sé heilt yfir vel á sig komið.

Fólkið var á litlum trébát um 50 sjómílur norðvestur af Trípólí, höfuðborg Líbíu, þegar Týr bjargaði því í gærkvöldi. Fjöldi kvenna og barna var í hópnum eða alls 135 konur og 27 börn. Halldór segir í samtali við mbl.is að báturinn hafi verið yfirfullur af flóttafólki og að hann hefði að líkindum aldrei komist á áfangastað vegna lekans. Því var fólkið flutt yfir í Tý en aldrei hafa fleiri verið færðir um borð í íslenskt varðskip.

„Það er þröng á þingi en það komust allir undir þiljur,“ segir hann.

Varðskipið hefur verið við störf í Miðjarðarhafinu fyrir Landamærastofnun Evrópusambandsins Frontex.

Verða vonandi ekki orðnir 343 í fyrramálið

Flóttamennirnir eru enn um borð í varðskipinu en það stefnir nú á hafnarborgina Taranto á Ítalíu þar sem þarlend yfirvöld taka við fólkinu. Týr á að koma þangað um kl. 8 í fyrramálið.

„Dömurnar í eldhúsinu eru bara farna að baka. Það er nóg af brauði, djús og vatn til að drekka og svo er barnamatur hérna um borð. Þetta fólk er reyndar óvenjuvel búið. Það eru margir með nesti með sér. Það er enginn illa haldinn en það eru eins og gengur smávægilegir krankleikar, Heilt yfir er fólkið bara vel á sig komið,“ segir skipherrann.

Nokkrar barnshafandi konur eru á meðal flóttafólksins og þar af er ein alveg komin á steypirinn að sögn Halldórs.

„Ég ætla að vona að það verði ekki komnir 343 í fyrramálið. Við skulum vona að það sleppi,“ segir Halldór.

Reyna að nota allar fleytur á svæðinu til björgunar

Ekki liggur fyrir hvaðan flóttafólkið kemur en áhöfnin á Tý hefur enga aðstöðu til að kanna það. Það verður í höndum ítalskra yfirvalda að athuga uppruna þeirra.

Þetta er önnur stóra björgunaraðgerðin sem skipverjar á Tý standa í á skömmum tíma en á föstudaginn langa björguðu þeir 320 flóttamönnum af bát í Miðjarðarhafi.

„Þetta er óskaplega erfitt ástand. Fólkið streymir þarna frá Líbíu aðallega yfir til Ítalíu. Þetta eru þúsundir manna sem eru búin að fara undanfarna daga. Það vantar í raun fleiri björgunareiningar á svæðið, ástandið er þannig núna. Það er reynt að nota allar fleytur sem finnast þarna nálægt. Þegar það er gott veður þá fer þetta fólk eðlilega af stað. Það er að leita sér að betra lífsviðurværi í Evrópu. Þegar veðrið lagast þegar fer að vora fer fólkið af stað,“ segir Halldór.

Mikið álag er á áhöfn Týs en aðeins 18 skipverjar eru í henni. Halldór segir að haldið sé úti vöktum á dekkinu og undir þiljum á meðan flóttafólkið er um borð auk þess sem gefa þurfi því að borða.

Ætlunin er að Týr verði áfram við eftirlit í Miðjarðarhafi til 20. maí en hann snúi væntanlega aftur til Íslands 1. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert