Ríkisstjórnin hvetur vinnuveitendur, jafnt á almennum vinnumarkaði sem og hjá ríki og sveitarfélögum, til þess að veita starfsmönnum sínum frí 19. júní eins og kostur sé svo þeir geti tekið þátt í skipulögðum hátíðahöldum þann dag sem áformuð eru í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu í dag.
„Ríkisstjórn Íslands fjallaði um málið á fundi sínum í morgun í framhaldi af erindi frá framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna 2015. Nefndin starfar á grundvelli þingsályktunar nr. 18/141 um hvernig minnast skuli 100 ára afmælis kosningaréttar íslenskra kvenna föstudaginn 19. júní næstkomandi.“