200 tjón vegna holanna

Þessi hola er við hring­torg á Reykja­vegi, og get­ur skapað …
Þessi hola er við hring­torg á Reykja­vegi, og get­ur skapað hættu fyr­ir öku­menn. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Um tvöhundruð tilkynningar um tjón vegna holuaksturs hafa borist Vegagerðinni það sem af er ári. Eru tjónin þegar orðin um tvöfalt fleiri en allt árið í fyrra, þegar 110 tilkynningar bárust. Aukningin er því gríðarleg á milli ára og með því mesta sem sést hefur samkvæmt upplýsingum mbl.is.

Í nær öllum tilfellum sitja ökumenn uppi með tjónið óbætt og geta upphæðirnar numið hundruðum þúsunda. Ein­ung­is ein­um tjónþola hefur tek­ist að fá tjón sitt bætt en tjón vegna holuakst­urs fást ekki bætt með kaskó-trygg­ingu og öku­menn fá tjónið ekki bætt nema að búið hafi verið að til­kynna um hol­una sem olli því.

Hola í vegi á Sæ­braut.
Hola í vegi á Sæ­braut. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Ástand vega á höfuðborg­ar­svæðinu hef­ur versnað mikið frá áramótum og víða hafa mynd­ast djúp­ar hol­ur í göt­um. Mbl.is hef­ur borist fjöldi ábend­inga um hol­ur víða um borg­ina, meðal annars í Skeifunni, Sigtúni, á Lækjargötu, Reykjanesvegi, Holtavegi, Framnesvegi, Suðurlandsbraut, Eggertsgötu, Melatorgi og víðar. Þá eru djúp­ar rák­ir á Vest­ur­lands­vegi og Sæ­braut sem geta skapað mikla hættu.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­un­um frá björg­un­ar­fé­lag­inu Vöku sem sinn­ir meðal ann­ars drátt­arþjón­ustu hef­ur orðið mörg hundruð prósent aukn­ing á út­köll­um af þessu tagi frá síðasta ári. Hafa síðustu vik­ur verið sér­stak­lega anna­sam­ar og fyr­ir­tækið fengið fjölda beiðna á dag.

Starfsmenn borgarinnar fylla í holur á höfuðborgarsvæðinu.
Starfsmenn borgarinnar fylla í holur á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Golli

Sjóvá trygg­ir stærstu veg­hald­ara á höfuðborg­ar­svæðinu: Vega­gerðina, Hafn­ar­fjarðabæ og Reykj­vík­ur­borg. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Sjóvá hef­ur orðið al­gjör spreng­ing í mál­um af þessu tagi og þau marg­falt fleiri en síðustu ár. Sigurjón Andrésson, markaðsstjóri Sjóvá, segir ástandið ennþá slæmt og valdi það Sjóvá geysilega miklum áhyggjum.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Vega­gerðinni er unnið að því að fylla upp í hol­ur af fremsta megni, en veður síðustu vik­ur hef­ur gert það erfiðara. Eft­ir hrun hafa verið notaðar ódýr­ari lausn­ir til að viðhalda slit­lagi en einnig að setja bæt­ur og fylla í hjól­för í stað þess að leggja nýj­ar yf­ir­lagn­ir.

Á Vest­ur­lands­vegi hafa mynd­ast rák­ir í vegi en þar sem …
Á Vest­ur­lands­vegi hafa mynd­ast rák­ir í vegi en þar sem um stoðbraut er að ræða skap­ast mik­il hætta út frá þessu. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert