Um tvöhundruð tilkynningar um tjón vegna holuaksturs hafa borist Vegagerðinni það sem af er ári. Eru tjónin þegar orðin um tvöfalt fleiri en allt árið í fyrra, þegar 110 tilkynningar bárust. Aukningin er því gríðarleg á milli ára og með því mesta sem sést hefur samkvæmt upplýsingum mbl.is.
Í nær öllum tilfellum sitja ökumenn uppi með tjónið óbætt og geta upphæðirnar numið hundruðum þúsunda. Einungis einum tjónþola hefur tekist að fá tjón sitt bætt en tjón vegna holuaksturs fást ekki bætt með kaskó-tryggingu og ökumenn fá tjónið ekki bætt nema að búið hafi verið að tilkynna um holuna sem olli því.
Ástand vega á höfuðborgarsvæðinu hefur versnað mikið frá áramótum og víða hafa myndast djúpar holur í götum. Mbl.is hefur borist fjöldi ábendinga um holur víða um borgina, meðal annars í Skeifunni, Sigtúni, á Lækjargötu, Reykjanesvegi, Holtavegi, Framnesvegi, Suðurlandsbraut, Eggertsgötu, Melatorgi og víðar. Þá eru djúpar rákir á Vesturlandsvegi og Sæbraut sem geta skapað mikla hættu.
Samkvæmt upplýsingunum frá björgunarfélaginu Vöku sem sinnir meðal annars dráttarþjónustu hefur orðið mörg hundruð prósent aukning á útköllum af þessu tagi frá síðasta ári. Hafa síðustu vikur verið sérstaklega annasamar og fyrirtækið fengið fjölda beiðna á dag.
Sjóvá tryggir stærstu veghaldara á höfuðborgarsvæðinu: Vegagerðina, Hafnarfjarðabæ og Reykjvíkurborg. Samkvæmt upplýsingum frá Sjóvá hefur orðið algjör sprenging í málum af þessu tagi og þau margfalt fleiri en síðustu ár. Sigurjón Andrésson, markaðsstjóri Sjóvá, segir ástandið ennþá slæmt og valdi það Sjóvá geysilega miklum áhyggjum.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er unnið að því að fylla upp í holur af fremsta megni, en veður síðustu vikur hefur gert það erfiðara. Eftir hrun hafa verið notaðar ódýrari lausnir til að viðhalda slitlagi en einnig að setja bætur og fylla í hjólför í stað þess að leggja nýjar yfirlagnir.