Ekki áður orðið slys á þessum stað

Frá slysstað í Hafnarfirðinum í gær.
Frá slysstað í Hafnarfirðinum í gær. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lögð verður áhersla á að slys eins og það sem varð fyrir neðan Reykdalsstíflu í Hamarkotslæk í Hafnarfirði í gær geti ekki endurtekið sig. Eftir því sem bæjarstjóri bæjarins og starfsfólk hans kemst næst hefur ekki áður orðið slys á þessum stað en stíflan var endurgerð árið 2006.

Starfsfólk bæjarins var við störf við stífluna í gær og hefur verið frá því í morgun en meðal annars er unnið að því að tæma lónið. Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri segir í samtali við mbl.is að verið sé að fara yfir stöðu mála.

„Því miður gerðist þetta og það er mjög mikilvægt að við bregðumst við og reynum að sjá til þess að svona geti ekki gerst aftur,“ segir Haraldur.

Mikið vatn var í lóninu og læknum

Starfsfólk bæjarins vinnur málið í samstarfi við lögreglu og aðra sem veitt geta aðstoð en Haraldur segir að ekki liggi fyrir endarlegar niðurstöður.

„En við munum gera allt sem gera þarf svo svona geti ekki gerst aftur. Þetta er hrikalegt, að svona slys hafi getað átt sér stað,“ segir hann.

Ljóst er að mikið vatn var í lóninu og læknum eftir rigningu síðustu daga og segir Haraldur það væntanlega vera hluti af skýringunni, þ.e. að svo illa hafi farið.

Slysið hefur áhrif á alla

Áfalla- og viðbragðsteymi bæjarins var virkjað í gær og voru meðal annars sendar upplýsingar til foreldra nemenda í skólunum þremur sem eru næstir svæðinu, þ.e. Lækjarskóla, Setbergsskóla og Öldutúnsskóla.

Þá hefur verið rætt við skólastjóra, skólastjórnendur og kennara og fengu foreldrar meðal annars símanúmer sálfræðinga sem hægt er að hafa samband við ef þörf krefur.

„Svona slys hefur áhrif á alla. Hugur okkar er hjá þessum blessuðu drengjum og þessum unga manni og stúlku sem eru úr Hafnarfirði og lögðu sig í hættu við að bjarga drengjunum og lögreglumanninum og einnig aðstandendum alls þessa fólks,“ segir Haraldur og vill hann þakka öllum þeim sem komið hafa að málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert