Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í hverfisráði Breiðholts óskaði lausnar frá því embætti á fundi með oddvitum flokksins í morgun. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti flokksins, tekur hans sæti í ráðinu. Hún segist ekki hafa vitað af ummælum fulltrúans um múslíma fyrr en í morgun.
Stundin greindi frá ummælum sem Rafn Einarsson, áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í hverfisráði Breiðholts, hefur viðhaft á Facebook-síðu sinni um múslíma. Þar hafi hann meðal annars skrifað að senda ætti alla múslíma „heim“ til Sádí-Arabíu, Íslendingar sé illa við múslíma og að engum þeirra sé treystandi og þeir séu til alls vísir.
Sjá nýja frétt: Vísar gagnrýni borgarfulltrúans á bug
Sveinbjörg Birna segir að niðurstaða fundar með Rafni í morgun hafi verið sú að hann hafi óskað eftir lausn frá störfum. Í framhaldinu hafi verið send tilkynning til skrifstofu borgarstjóra þar sem óskað var eftir að hún sjálf tæki sæti í hverfisráði Breiðholts enda væri hún nýflutt þangað.
„Þetta verður bara lyftistöng fyrir hverfisráð Breiðholts að fá oddvita inn í sitt ráð,“ segir Sveinbjörg Birna.
Hún segist ekki hafa vitað af ummælum Rafns fyrr en nú í morgun.
„Auðvitað finnst mér þetta miður sama hvort þetta sé hann eða einhver annar sem viðhefur svona ummæli,“ segir Sveinbjörg Birna sem telur það ágætis lendingu að Rafn stigi til hliðar.
„Þetta eru auðvitað persónuleg ummæli hans sem hefur ekkert með stefnu Framsóknar og flugvallarvina að gera. Þau eru ekki sett fram í nafni Framsóknar og flugvallarvina. Við erum ekki sammála þeim og þetta er ekki stefna Framsóknar og flugvallarvina,“ segir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina.
Hún segir að sér hafi brugðið og hún orðið reið við þegar hún sá umfjöllun Stundarinnar um ummæli áheyrnarfulltrúans í morgun og að þau væru tengd við flokkinn með mynd af oddvitum flokksins. Hún er ósátt við að ekki hafi verið haft samband við fulltrúa flokksins áður.
„Mér finnst þetta bara mjög léleg vinnubrögð af hálfu Stundarinnar,“ segir Guðfinna Jóhanna.