Hlé á lyfjameðferð vegna verkfalls

Hinrik A. Hansen bíður eftir að fá að komast í …
Hinrik A. Hansen bíður eftir að fá að komast í myndatöku vegna meðferðar á krabbameini í litlaheila. Hann þarf að bíða vegna verkfalls BHM. Ómar Óskarsson

Hinrik A. Hansen krabbameinssjúklingur átti að mæta í myndatöku á miðvikudaginn í síðustu viku vegna meðferðar á krabbameinsæxli í litla heila.

Vegna verkfalls BHM, þ.e. Félags geislafræðinga í þessu tilviki, var hann sendur heim og bíður hann enn eftir myndatöku. Á meðan hefur verið gert hlé á meðferð hans. Þetta kemur fram í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

„Á miðvikudaginn í síðustu viku átti ég að mæta í myndatöku vegna meðferðar á æxli í litlaheila. Undanfarna daga hef ég orðið var við aukin og ný einkenni sem geta komið fram ef æxlið er að færast nær heilastofni og mynda þar þrýsting sem m.a. veldur tvísýni. Til þess að fá úr því skorið hvort um þetta sé að ræða eða orsakanna sé að leita annað, er bráðnauðsynlegt að ég komist í myndatöku,“ segir Hinrik.

Fékk ekki að fara í myndatöku

Hinrik fékk aftur á móti ekki að fara í myndatöku, heldur var hann sendur heim þar sem verkfall Bandalags háskólamanna (BHM) var skollið á. Til að krabbameinslæknirinn geti metið hvaða meðferð er líklegust til árangurs, þarf hann niðurstöður úr nýjum myndatökum og var því ákveðið að sækja um undanþágu fyrir Hinrik.

Í dag er þriðjudagur og reynir læknir hans það sem hann getur til að tala máli Hinriks til þeirra sem flokka þau bráðatilfelli er hljóta afgreiðslu.

„Það þarf ekki sérfræðing til að skilja að tíminn skiptir þarna höfuðmáli í mínu tilviki, til að geta brugðist rétt við og stöðvað hugsanlegan vöxt sem allra fyrst.  Á meðan beðið er niðurstöðu verður að gera hlé á lyfjameðferðinni sem ég er hálfnaður í,“ skrifar Hinrik.

Sjúklingar notaðir í kjarabaráttunni

„Það hefur færst í aukana að sjúklingar hérlendis séu notaðir í kjarabaráttu mismunandi starfsstétta,“ skrifar Hinrik og bendir á að í dag eru 17 aðildarfélög BHM í verkfalli. Heildarfjöldi félagsmanna BHM er 3.009 og þar af eru 108 í Félagi geislafræðinga sem er í ótímabundnu verkfalli.

„Þarna er BHM að sækja launahækkanir fyrir heil 17 aðildarfélög og beitir fyrir sig sjúklingum landsins. Er þetta þróun sem okkur finnst eðlileg og megum við búast við fleiri aðgerðum á næstu misserum, þar sem stéttarfélög nota neyð sjúklinga á spítölum landsins til að sækja launahækkanir fyrir sína félagsmenn?“ spyr Hinrik.

Skiptimynt kjarabóta minni lífslíkur sjúklinga?

„Ég ætla engum einstaklingi það að neita öðrum um aðstoð í neyð, en þegar einstaklingar eru orðnir hluti af hópi verður samstaða hópsins yfirsterkari samvisku þeirra einstaklinga sem hópnum tilheyra. Vissulega þarf að semja og samningar verða ekki til nema allir aðilar borðsins leggi sig fram. Það réttlætir samt ekki þá meðferð sem sjúklingar þessa lands þurfa að þola og þurfa áfram að þola, verði ekki breyting á þessum hugsunarhætti.“

„Er þetta þjóðfélag sem við viljum lifa í? Er réttlætanlegt að skiptimynt kjarabóta sé minni lífslíkur sjúklinga? Þessu verður að linna. Það getur enginn í hjarta sínu réttlætt þetta ástand. Það eina sem við sjúklingar getum gert er að biðjast vægðar,“ skrifar Hinrik að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert