Líðan drengs sem festist í fossi í Læknum í Hafnarfirði í gær er óbreytt, samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum. Tveir bræður á grunnskólaaldri festust í fossi sem fellur af Reykdalsstíflu síðdegis í gær. Annar bræðranna komst fljótt til meðvitundar en hinum er haldið sofandi í öndunarvél.
Karlmaður á þrítugsaldri lenti einnig í vatninu við fossinn þegar hann reyndi að bjarga drengjunum.Tilkynning barst til lögreglu rétt eftir klukkan hálfþrjú. Lögregla, slökkvilið og sjúkrabílar voru kölluð út, einnig kafarabíll og dælubíll. Þegar að var komið voru drengirnir fastir í fossinum en karlmaðurinn var í vatninu þar hjá.
Björgunaraðgerðir gengu erfiðlega vegna straums og áttu lögreglumenn erfitt með að athafna sig, samkvæmt tilkynningu frá lögreglu. Eftir að búið var að koma bræðrunum á land hófust lífgunaraðgerðir. Annar þeirra komst til meðvitundar en hinum er haldið sofandi á gjörgæsludeild. Ástand mannsins sem reyndi að koma þeim til bjargar er ekki sagt alvarlegt.
Að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, eru drengirnir sem lentu í slysinu ekki í grunnskóla í Hafnarfirði.
„Fyrst og fremst er hugur okkar hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna slyssins,“ segir Steinunn.
Rætt hefur verið við alla kennara í þeim þremur skólum sem eru næst slysstaðnum en það eru Öldutúnsskóli, Lækjarskóli og Setbergsskóli. Einnig var sendur póstur á foreldra í skólunum þar sem sagt var frá málsatvikum. Sálfræðingar verða til taks í skólunum í dag ef einhverjum líður illa eða þarf á aðstoð að halda.