Mánuður er liðinn frá einu mesta óveðri sem sést hefur á höfuðborgarsvæðinu á síðari árum. Mikill fjöldi trjáa féll auk þess sem rúður brotnuðu en mest var þó tjónið í Mosfellsbæ þar sem lá við að fólk þyrfti árabát ef það hugðist á annað borð hætta sér út á götu.
Bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Haraldur Sverrisson, segir tjónið á almenningseign vegna óveðursins vera metið á um 15 milljónir króna.
Frétt mbl.is: Stormurinn í myndum
„Það klikkaði ekkert sérstakt. Öll okkar fráveitukerfi virkuðu en það var það mikil rigning og snjór sem bráðnaði að það hefði ekkert fráveitukerfi ráðið við þetta,“ segir Haraldur.
„Það urðu skemmdir á göngustígum og göngubrúm og slíku víðs vegar í bænum. Það voru strax gerðar öryggisráðstafanir þannig að fólki stafaði ekki hætta af skemmdunum en svo förum við í það með vorinu að laga það sem þarf að laga.“
Haraldur segir að alltaf megi læra af atburðum á við storminn en að starfsmenn Mosfellsbæjar hafi engu að síður verið vel undirbúnir og að ýmsar ráðstafanir hafi verið gerðar.
„Eitt af því sem við þurfum líklega að fara í gegnum eru samskipti við Almannavarnir þannig að allir séu á sömu nótunum og viðbúnaður sé réttur. Það vildi svo til að neyðarstjórn Mosfellsbæjar var með æfingu aðeins þrem dögum síðar þar sem við fórum ágætlega í gegnum þetta,“ segir Haraldur og bætir við að almenningur hafi aldrei verið í beinni hættu heldur fyrst og fremst mannvirki.