Hann líkir uppsveiflunni við það að breytast í varúlf, fara í ham þar sem hann öðlast eiginleika úlfsins; hraða, styrk og hyggindi. Hér áður fyrr voru þeir sem voru útskúfaðir úr samfélaginu reknir burt með þeim orðum að þeir ættu að lifa eins og úlfar. Héðinn Unnsteinsson er höfundur bókarinnar Vertu úlfur, þar sem hann segir frá reynslu sinni af geðhvörfum. Þetta er saga af sigri.
„Mér líður vel í dag og ég er lyfjalaus. Ég hef lært að mataræði, svefn, hugleiðsla og hreyfing skipta miklu máli fyrir mig. Ef ég næ að vinna með það á réttan hátt er auðvelt fyrir mig að stjórna minni lífsorku og þá þarf ég ekki hjálp frá kerfinu eða lyfjum. Ég hugleiði í tuttugu mínútur á hverjum morgni og næ þannig að hafa stjórn á hugsunum mínum. Ég þekki þær hugsanir sem ég áður fyrr sogaðist inn í, en nú næ ég að stöðva þær, ég hleypi þeim ekki að. Ég hef verið þátttakandi í Al-anon-samtökunum og farið í gegnum tólf spora kerfið og það hefur gefið mér frelsi til að geta valið um það í lífinu við hverju ég bregst og hverju ekki. Þetta snýst líka um innri fullvissu og að vera ekki háður ytri viðurkenningu,“ segir Héðinn Unnsteinsson sem nýlega sendi frá sér bókina Vertu úlfur, sem er vægðarlaus saga af hamskiptum, en þar segir hann frá eigin reynslu af geðhvörfum, aðallega frá versta uppsveiflukastinu sem varð hjá honum árið 2008 sem endaði með nauðungarvistun á geðdeild. Bók Héðins er sannarlega saga af sigri, líf hans er nú í föstum skorðum og hann stundar vinnu sína sem stefnumótunarsérfræðingur í forsætisráðuneytinu.
„Ég hef aldrei litið á geðhvörfin sem alvörusjúkdóm, heldur sem ákveðinn hluta af persónuleika. Ég hef alltaf litið á þetta sem ýmist óstjórnlega mikla orku eða óstjórnlega litla orku. Við getum aldrei sett einhverja hlutlæga mælistiku á normið. Sá tími sem ég hef verið veikur er samtals um tvö ár, það er stuttur tími af lífi mínu, og þess vegna er ég ekki tilbúinn til að skrifa undir það að ég sé geðveikur maður. En ég kemst ekkert undan þeim dómi að hafa verið greindur með geðhvörf. Þótt ég álíti að í dag sé ég heilbrigðari en margur annar sem ekki hefur fengið þennan huglæga stimpil, þá losna ég aldrei við hann. Það er fólk út um allan heim sem lifir lyfjalausu lífi þótt það hafi einhvern tímann fengið einhverja greiningu. Í dag getur nánast enginn gengið inn á læknastofu án þess að ganga út með einhver lyf. Það eru mikil hagsmunaöfl sem viðhalda því að greina sem flest fólk til að geta selt lyf. Það er þversögn og eitthvað að þegar heilbrigðisþjónusta batnar með hverju árinu, en sífellt fleiri eru greindir veikir,“ segir Héðinn, sem missti fyrst stjórnina á tilfinningum sínum og líðan þegar hann var 19 ára. Þá datt hann í þunglyndi og kvíða en náði sér á strik eftir nokkra mánuði.
„Tveimur árum síðar lenti ég í þessu aftur þegar ég kom heim frá Bandaríkjunum og fór í læknanám í Háskólanum, en þá var það ekki þunglyndi eins og í fyrra skiptið heldur allt of mikil orka. Ég hlakkaði svo til morgundagsins að ég gat ekki farið að sofa og þegar maður hættir að sofa fer allt í rugl. Ég missti stjórnina. Þá kom kerfið og sagði: „Þú ert með röskun. Þú ert með sjúkdóm. Þú verður að taka litíum alla ævi.“ Það voru þau skilaboð sem ég fékk hjá geðlækni.
Síðan var lífið heldur flatt í tíu ár, en þá ákvað ég að hætta á litíum, því afleiðingarnar voru að skjaldkirtillinn var blæðandi og safnast hafði upp kreatín í nýrunum hjá mér. Ég gerði þetta í samráði við minn lækni, að minnka litíumskammtinn smátt og smátt.“
Til að bregðast við blæðandi skjaldkirtli var Héðinn settur á hjartalyf, svokallaða betablokkera.
„Þessi hjartalyf hægðu rosalega á hjartslættinum og gerðu skynsvið mitt ofurnæmt á hljóð, ljós, rafmagn og fleira, sem eru þekktar aukaverkanir af betablokkurum á miðtaugakerfið. Ég var eins og rafmagnskapall með engri einangrun utan um. Ef við sjáum fyrir okkur himnu milli undirvitundar og meðvitundar, þá hvarf sú himna hjá mér. Ég fór í mjög mikla maníu eftir að ég hætti á hjartalyfjunum. Það var rosalegt ferðalag sem endaði í október það sama hrun-ár, 2008, þegar Geir bað Guð að blessa Ísland. Ég fór í bankana í ágúst rétt fyrir hrun og tók út peningana mína af því ég skynjaði að bankarnir væru að fara á hausinn og ég lét vita af því. Eftir á að hyggja var engin geðveiki í því,“ segir Héðinn og hlær.
Uppsveiflunni miklu lauk þegar Héðinn var nauðungarvistaður á geðdeild.
„Sjö karlmenn komu og tóku mig með valdi, sneru mig niður og sátu nokkrir ofan á mér á meðan þeir toguðu niður um mig buxurnar til að sprauta mig með róandi lyfjum. Eftir þessi átök var ég marinn frá öxl og niður á mjöðm, samt streittist ég ekkert á móti. Það er svo mikill óþarfi að beita slíku valdi. Fyrstu tvær vikurnar var ég lokaður inni í herbergi líkt og í einangrun og ég upplifði mig sem fanga, þótt ég hefði ekkert brotið af mér. Það er mikið áfall að vera sviptur frelsi,“ segir Héðinn og bætir við að það hafi tekið mjög langan tíma fyrir hann að vinna úr því áfalli að hafa verið nauðungarvistaður og að faðir hans skyldi bera ábyrgð á þeirri ákvörðun.
„Ég var lengi að vinna aftur traust og samskipti við föður minn. Ég var alveg brjálaður út í hann og átti lengi mjög erfitt með að tala við hann. En mér tókst að vinna mig út úr þessu og hann gafst aldrei upp á því að hafa samband við mig. Ég fór til hans með fyrirgefningarskjal sem ég las upp fyrir hann. Og við fórum saman til sálfræðings til að ræða þetta. Ég tek ofan fyrir föður mínum að hafa lagt sig fram um að bæta samskipti okkar. Ég veit að það sem hann gerði var rétt, en hvernig það var gert var rangt.“
Lögð hefur verið fram tillaga að lagabreytingu, sem fer fyrir þingið í haust, um að sveitarfélög en ekki nánir ættingjar skrifi undir ákvörðun um nauðungarvistun fólks, en Héðinn á stóran hlut að máli við þá vinnu.
„Það getur haft gríðarleg áhrif á samskipti og lífsgæði þegar náinn ættingi skrifar undir nauðungarvistun. Ég veit um bræður sem hafa ekki talað saman í tuttugu ár vegna slíks, og það er bara eitt dæmi af mörgum. Það er ekki boðlegt að hafa svo slæm áhrif á samskipti innan fjölskyldna. Þess vegna verða sveitarfélögin að taka þessa ábyrgð.“
Héðinn nefnir líka dæmi um unga menn sem hafa farið í geðrof vegna hassreykinga og þeim verið haldið í hálft ár, jafnvel heilt, sjálfræðissviptum inni á Kleppsspítala.
„Slíkt inngrip hefur gríðarleg áhrif á svo ungt fólk. Þess vegna er mikilvægt að endurskoða þessi lög, það er stórt mannréttindamál að fækka tilfellum nauðungarvistunar og sjálfræðissviptingar.“
Þegar ég spyr Héðin hvort uppsveiflan sé ekki á einhverju stigi skemmtileg, í ljósi þess að sumir með geðhvörf segjast ekki hefðu viljað missa af því að upplifa maníu, segir hann að vissulega sé hún kraftmikil og hömlulaus, en hún endi alltaf í paranoju og þunglyndi, sem fylgi mikil og erfið átök.
„Þetta uppsveifluferðalag hjá mér árið 2008 var vissulega mögnuð upplifun, eins og lýsi í bókinni, en ég upplifði líka hræðilega hluti, eins og felmtursástand, eða ofsahræðslu, sem er skelfileg upplifun.“
Héðinn segir að allt sem gerðist í huga hans í þessu ferðalagi hafi verið lógískt og raunverulegt fyrir honum þar sem hann var þá, þótt allur heimurinn hafi sagt að hann væri geðveikur.
„Þetta er allt svo afstætt og huglægt og við megun ekki takmarka of mikið þessa hugsanastorma sem fólk upplifir, því í þeim hafa ótrúlegir hlutir verið gerðir og uppgötvaðir í gegnum tíðina, hjá svokölluðum snillingum sem fóru út fyrir boxið.“