Talið er hugsanlegt að drengirnir tveir hafi verið að sækja bolta í Hamarkotslæk í Hafnarfirði í gær. Bræðurnir, sem búsettir eru á Tálknafirði, festust í fossi sem rennur fram af Reykdalsstíflu og er þeim yngri enn haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæslu Landspítalans. Samkvæmt upplýsingum frá LSH er talið að svo verði áfram næstu daga. Hins vegar er búið að útskrifa eldri drenginn og er hann nú með fjölskyldu sinni.
Drengirnir eru 9 og 12 ára. Ellefu ára systir þeirra var með í för og hringdi hún í móður þeirra eftir hjálp þegar ljóst var drengirnir hefðu lent í fossinum.
Að sögn lögreglu í Hafnarfirði er verið að ræða við vitni og aðra sem voru á staðnum í gær. Verkið er tímafrekt og viðkvæmt þar sem meðal annars er um unga einstaklinga að ræða. Meðal þeirra sem urðu vitni að slysinu er nemandi úr Lækjarskóla sem er í grennd við staðinn þar sem slysið varð.
Bolti fannst í læknum og kannar lögregla meðal annars hvort drengirnir hafi verið að reyna að ná í boltann þegar slysið varð en vitað er að þeir voru að leik við lækinn. Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá boltann sem fannst í læknum.
Fjarðarpósturinn greinir frá því að svo virðist sem yngri drengurinn hafi ætlað að sækja bolta sem fallið hafði í lónið og farið niður fossinn og haldist þar. Við það féll hann í vatnið og hélt krafturinn í fossinum honum niðri. Bróðir hans reyndi að koma honum til hjálpar en án árangurs og hafnaði hann sjálfur í fossinum.
Hafist var handa við að tæma lónið fyrir ofan stífluna í gær vegna rannsóknar málsins og var fossinn stöðvaður.
Karlmaður á þrítugsaldri sem kom drengjunum til bjargar, hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi.