Íbúar Úlfarsárdals, Grafarholts og forsvarsmenn íþróttafélagsins Fram gagnrýndu borgaryfirvöld harðlega á íbúafundi í kvöld, en óánægja er með hægagang á framkvæmdum og óuppfyllt loforð. Á fundinum var farið yfir fyrirhugaða uppbyggingu á íþróttamannvirkjum, menningarmiðstöð og sundlaug, en ekki er gert ráð fyrir að þau klárist að fullu fyrr en eftir sjö ár.
Framkvæmdum í dalnum hefur þó verið flýtt og sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, að ákveðið hefði verið að setja 2,5 milljarða á ári að jafnaði næstu árin í uppbygginguna. Það væri mun meira en almennt tíðkaðist hjá borginni, en viðmiðunarregla síðustu ára hefði verið hámark einn milljarður í hvert afmarkað verkefni. Sagði Dagur þessar framkvæmdir því fara langt fram úr þeim viðmiðum.
Á fundi borgarráðs í morgun voru þessi áform samþykkt, en gert er ráð fyrir að skólamannvirki verði tekin í notkun í áföngum, þau fyrstu árið 2016 en öll 2018 eða 2019, sama ár og íþróttamannvirkin verða fullbyggð. Stefnt verði að því að uppbygging íþróttamannvirkja fari fram samhliða byggingu grunnskólans og hefjist þegar nauðsynlegri samningagerð við Fram er lokið. Lokaáfanginn felst í byggingu menningarmiðstöðvar og sundlaugar, en áætlað er að verklok geti orðið árið 2022.
Fundurinn var haldinn í Ingunnarskóla í Grafarholti og mættu á milli 200 til 300 manns á hann og fylltu sal skólans. Einn óánægður fundargestur sagði að miðað við áformuð verklok sundlaugarinnar eftir sjö ár myndi barn sem væri getið þetta kvöld vera komið í annan bekk þegar sundlaugin væri klár.
Myndir af fyrirhugaðri uppbyggingu má sjá hér fyrir neðan.