Fjölmargir ökumenn hafa lent í tjóni vegna lélegs ástands vega á höfuðborgarsvæðinu upp á síðkastið, en víða hafa myndast djúpar holur í vegum. Kári Þór Rúnarsson er einn þeirra sem orðið hefur fyrir barðinu á vegakerfinu, en fyrir skömmu lenti hann ofan í holu á Mýrargötu í Reykjavík og skemmdi tvö dekk auk þess sem sprunga kom í framrúðu bílsins við höggið.
Lögregluskýrsla var gerð og málið tilkynnt til tryggingarfélags strax næsta dag. Að sögn Kára vísaði tryggingarfélagið kröfunni á bug þar sem Vegagerðin er ekki bótaskyld ef ekki hefur verið tilkynnt um sömu holu áður. Kári segist þó gefa lítið fyrir þær skýringar, enda eigi hann ljósmyndir sem sýni annað.
„Ég tók myndir af ástandinu þetta kvöld sem sýnir þessa stærðarholu sem hefur tekið þó nokkurn tíma að myndast. Í fyrsta lagi finnst mér undarlegt að á þeim tíma sem þessi hola hefur verið að myndast, hafi enginn bíll á vegum borgarinnar keyrt meðfram Mýrargötu. Einnig er nokkuð öruggt að einhvern tímann á þeim tíma sem tók holuna að myndast hafi að minnsta kosti einn lögreglubíll keyrt framhjá og þá ekki tilkynnt um holuna. Maður spyr sig þá hvað það sé ekki vanræksla hjá lögreglu?“ segir hann.
Hann segir það þó sanna „hreinlega lygi hjá Vegagerðinni“ að mikil möl er meðfram kantinum þar sem holan er. Mölin sé uppfyllingarefni sem hefur verið notað til að fylla upp í holuna sem hefur svo spólast upp úr henni aftur, enda líklegast fyllt upp í meðan frost var og erfitt var að malbika. Hvergi annars staðar meðfram Mýrargötunni sé svona mikið af möl meðfram vegakantinum.
„Fyrstu skilaboð frá tryggingarfélaginu var að þeir hafni þessari kröfu minni um tjónabætur. Ég sagðist ekki una því og tryggingarfélagið sagðist myndi hafa samband við Vegagerðina til að skoða málið frekar. Það tók þá 3 vikur að skoða málið og svara mér svo að þeir stæðu við fyrri höfnun og nú sit ég uppi með rúmlega tvöhundruð þúsund króna tjón sem Vegagerðin lætur falla á mig,“ segir Kári.
Hann segist alls ekki sáttur við þessi málalok og vill því draga þetta mál og „yfirhylmingu Vegagerðarinnar“ upp á yfirborðið. „Mér finnst það líka undarlegt að ég sem tjónaþoli er undir ákvörðun tjónvaldsins kominn um hvort ég fái bætur.“
Um tvöhundruð tilkynningar um tjón vegna holuaksturs hafa borist Vegagerðinni það sem af er ári. Eru tjónin þegar orðin um tvöfalt fleiri en allt árið í fyrra, þegar 110 tilkynningar bárust. Aukningin er því gríðarleg á milli ára og með því mesta sem sést hefur samkvæmt upplýsingum mbl.is.
Eins og tölurnar bera með sér getur verið erfitt að fá tjónið bætt því einungis tveimur tjónþolum hefur tekist það en sé fólk ósátt við niðurstöðu í máli sínu er hægt að skjóta málinu til úrskurðarnefndar vátryggingamála. Í henni sitja þrír lögfræðingar fyrir hönd tryggingafélaganna, ríkisins og Neytendasamtakanna en 6.000 kr. kostar að fara með málið í þann farveg. Aðeins sex úrskurðir hafa fallið hjá nefndinni frá áramótum, þegar ástand fór að versna til muna, en fjórir þeirra voru ekki ökumönnum í vil.
Einn úrskurður nefndarinnar var gefinn út í febrúar, mánuði áður en Kári lenti í tjóni, en ökumaður hafði lent í tjóni á nákvæmlega sama stað. Samkvæmt ökumanni í því máli hafði hola myndast á sama stað mánuði áður og sú viðgerð sem hafi átt sér stað þá hafi greinilega ekki verið nægilega góð þar sem holan hafi myndast á sama stað aftur. Sagði ökumaður Vegagerðina hafa mátt vita af því að augljós hætta væri á holumyndun á umræddum stað þar sem holan hafði myndast stuttu áður og full ástæða hafi verið til að fylgjast sérstaklega með.
Nefndin úrskurðaði að ökumaður ætti ekki rétt á bótum í því máli, þar sem ekki lágu fyrir gögn sem sýndu fram á að tilkynnt hefði verið um umrædda holu áður en tjón varð, og ekki heldur að viðgerð á sama stað mánuði áður hafi verið ófullnægjandi. Þá kemur fram að ekki liggji fyrir nægileg gögn sem sýndu að starfsmenn Vegagerðarinnar hafi vanrækt eðlilega eftirlitsskyldu sína með umræddum vegi þannig að sýnt sé gáleysi þeirra við störf sín.
Fram hefur komið að ástandið sem nú er á götum höfuðborgarsvæðisins má að töluverðu leyti rekja til sparnaðar á undanförnum árum. Bæði hafa verið notuð endingarminni efni í malbikið en einnig hefur verið gripið til þess ráðs að fylla í holur í stað þess að leggja nýtt slitlag. Mbl.is hefur borist fjöldi ábendinga um holur víða um borgina, meðal annars í Skeifunni, Sigtúni, á Lækjargötu, Reykjanesvegi, Holtavegi, Framnesvegi, Suðurlandsbraut, Eggertsgötu, Melatorgi og víðar. Þá eru djúpar rákir á Vesturlandsvegi og Sæbraut sem geta skapað mikla hættu.
Sjóvá tryggir stærstu veghaldara á höfuðborgarsvæðinu: Vegagerðina, Hafnarfjarðabæ og Reykjvíkurborg. Samkvæmt upplýsingum frá Sjóvá hefur orðið algjör sprenging í málum af þessu tagi og þau margfalt fleiri en síðustu ár.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er unnið að því að fylla upp í holur af fremsta megni, en veður síðustu vikur hefur gert það erfiðara. Eftir hrun hafa verið notaðar ódýrari lausnir til að viðhalda slitlagi en einnig að setja bætur og fylla í hjólför í stað þess að leggja nýjar yfirlagnir.