Voru að reyna að ná í bolta

Frá slysstað í Hafnarfirðinum.
Frá slysstað í Hafnarfirðinum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bræðurnir tveir sem voru hætt komnir við Reykdalsstíflu í Hafnarfirði fyrr í vikunni voru ásamt systur sinni að reyna að ná í bolta sem hafði farið í rennuna við stífluna. Drengirnir eru 9 og 12 ára en stúlkan 11 ára samkvæmt fréttatilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um rannsókn slyssins.

Eins og mbl.is hefur greint frá er yngri drengurinn nú vaknaður og kominn úr öldunarvél en sá eldri var endurlífgaður á slysstað og útskrifaður af Landspítalanum fyrr í vikunni. Eftir árangurlausar tilraunir tók yngri drengurinn þá afdrifaríku ákvörðun að fara út í rennuna til þess að ná boltanum samkvæmt tilkynningu lögreglunnar. Mjög mikill vatnsstraumur hafi verið í stíflunni og ljóst að börnin hafi engan veginn gert sér grein fyrir hættunni frekar en björgunaraðilar sem komu síðar á vettvang. 

Þegar sá yngri féll í rennuna tók hann að sökkva og hringsnerist í hyl, sem er neðst í rennunni, en árfarvegurinn í rennunni myndaði hringiðju þarna í hylnum, ásamt því sem gróður gerði það að verkum að fótfesta var lítil sem engin. Í því fer eldri bróðirinn að reyna að aðstoða þann yngri, en við það fellur hann einnig í hylinn og því kominn í sömu sjálfheldu, líkt og yngri bróðirinn,“ segir ennfremur. Systirin hafi hringt í móður barnanna sem hafi haft samband við Neyðarlínuna. Hún reyndi síðan ásamt 16 ára stúlku sem kom þar að að ná eldri drengnum upp úr vatninu á meðan beðið var eftir björgunarfólki sem að lokum tókst.

Fréttatilkynning lögreglunnar í heild:

„Skömmu fyrir slysið voru þarna á ferð þrjú systkini, tveir bræður og systir þeirra, þegar þau veittu athygli bolta, sem hafði verið í rennu fyrir affalli Reykdalsstíflu í nokkra daga. Stúlkan, sem er 11 ára, og drengirnir, sem eru 9 og 12 ára, fóru að reyna ná boltanum úr rennunni. Mjög mikill vatnsstraumur var í stíflunni vegna aukins vatnsmagns í læknum. Eftir árangurslausar tilraunir tók yngri drengurinn þá afdrifaríku ákvörðun að fara út í rennuna, en ljóst var að börnin gerðu sér enga grein fyrir hættunni sem þarna leyndist, ekki frekar en þeir björgunaraðilar sem komu síðar á vettvang.

Þegar sá yngri féll í rennuna tók hann að sökkva og hringsnerist í hyl, sem er neðst í rennunni, en árfarvegurinn í rennunni myndaði hringiðju þarna í hylnum, ásamt því sem gróður gerði það að verkum að fótfesta var lítil sem engin. Í því fer eldri bróðirinn að reyna að aðstoða þann yngri, en við það fellur hann einnig í hylinn og því kominn í sömu sjálfheldu, líkt og yngri bróðirinn. Á þeim tímapunkti hringir systirin í móður þeirra, sem í framhaldinu kemur umsvifalaust á staðinn og hringir strax í 112 og kallar eftir aðstoð.

Áður en björgunarlið kom á vettvang, um fjórum mínútum eftir tilkynninguna, reyndi móðirin, ásamt 16 ára stúlku sem kom þarna að, að ná drengjunum upp. Fljótlega náðu þær saman taki á eldri drengnum án þess þó að hafa náð að draga hann upp úr hylnum vegna straumsins sem þarna var.

Systir drengjanna, sem var í samskiptum við 112 á meðan þessu stóð, stöðvaði ökumann, karlmann um þrítugt, sem átti leið hjá og kom hann móðurinni og stúlkunni til aðstoðar með eldri drenginn, sem tókst að ná upp úr hylnum. Við björgunina á þeim yngri féll karlmaðurinn hins vegar einnig út í hylinn og við það var hann sömuleiðis kominn í sjálfheldu.

Á þessum tímapunkti kom björgunarlið á staðinn og fóru lögreglumenn strax í að koma þeim til aðstoðar og fljótlega náðist karlmaðurinn einnig upp úr hylnum. Báðir voru þeir mjög kaldir og illa áttaðir en öndun eldri drengsins kom fljótt eftir að hafa fengið aðstoð. Lögreglumaður, sem var þarna til aðstoðar, freistaðist til að sækja yngri drenginn, sem var enn í hylnum. Við það að fara í hylinn lenti hann í sömu aðstöðu og karlmaðurinn og eldri drengurinn. Eftir einhvern tíma og tilraunir náðist í fótlegg lögreglumannsins og þannig að draga hann upp úr hylnum, en þá hafði lögreglumaðurinn náð taki á yngri drengnum og þeir báðir dregnir úr hylnum. Í framhaldinu voru hafnar endurlífgunartilraunir á yngri drengum.

Bræðurnir og karlmaðurinn voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar, en aðstoð var jafnframt veitt þeim sem komu að björguninni á vettvangi.

Ástand yngri bróðursins er stöðugt, en einhver meiðsli (mar, tognun) hlutust af bæði hjá eldri bróðurnum og þeim sem komu að björguninni.

Bæjaryfirvöld Hafnarfjarðarbæjar hafa tekið málið til skoðunar m.t.t. þess að koma í veg fyrir að atvik sem þetta endurtaki sig þarna í og við Reykdalsstífluna, en stíflan hefur verið tæmd þar til að ráðstafanir verða gerðar.

Lögreglan og fjölskylda barnanna vilja þakka þeim sem komu til aðstoðar þarna á vettvangi fyrir ótrúlega yfirvegun og þrekvirki, sem hinir sömu sýndu af sér við afar erfiðar aðstæður. Einnig vill lögreglan senda fjölskyldu barnanna, og ekki síst yngri drengnum, baráttu- og batakveðjur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert