Stuðningurinn snertir hann djúpt

Nemendur Réttarholtsskóla afhenda Ragnar Þorsteinssyni, fræðslustjóra Reykjavíkurborgar, undirskriftir 300 nemenda …
Nemendur Réttarholtsskóla afhenda Ragnar Þorsteinssyni, fræðslustjóra Reykjavíkurborgar, undirskriftir 300 nemenda sem styðja Jón Pétur sem næsta skólastjóra skólans. F.v. Vilhjálmur Ingi Stefánsson, Margrét Eva Sigurðardóttir, Styrmir Steinn Sverrisson, Ragnar Þorsteinsson og Anna María Birgisdóttir

Ekki er ólíklegt að Jón Pétur Zimsen sé meðal vinsælli skólastjórnenda landsins. Það sýndu nemendur við Réttarholtsskóla í verki í gær þegar þau afhendu Ragnari Þorsteinssyni, fræðslustjóra Reykjavíkur, undirskriftir 300 nemenda við skólann. Með því lýstu þeir yfir stuðningi við Jón Pétur, sem í dag er aðstoðarskólastjóri við Réttarholtsskóla, en unnið er að ráðningu nýs skólastjóra.

Ekki algengt að nemendur sýni svona stuðning

Jón var meðal 17 umsækjenda um starfið, en hann hefur gengt embætti aðstoðarskólastjóra undanfarin 8 ár. Skólinn hefur á þessum tíma komið gríðarlega vel út úr allskonar könnunum á færni og hæfni nemenda, en auk þess er einelti meðal þess minnsta sem gerist í skóla hér á landi.

Í samtali við mbl.is segir Ragnar að það sé ekki ýkja algengt að nemendur sýni stuðning við ákveðna umsækjendur eins og í þessu tilfelli. Það eigi sér þó fordæmi, bæði hjá nemendum sem og foreldrum og kennurum.

300 af 350 nemendum undirrituðu stuðningsyfirlýsingu

Tæplega 300 nemendur undirrituðu stuðningsyfirlýsingu fyrir Jón Pétur, en nemendur skólans eru um 350. Það er því ljóst að mikill meirihluti nemenda stendur við bakið á honum. Ragnar segir að eftir sem áður þurfi málið að fara hefðbundna leið og skóla- og frístundaráð muni velja í starfið eftir reglum um opinbera ráðningu.

Í yfirlýsingu nemendanna kemur fram að Jón Pétur hafi ekki verið valinn í fyrstu tilraun, en Ragnar segir það rétta í málinu vera að ákvörðuninni hafi verið frestað til næsta fundar sem haldinn verður 29. apríl.

Aðspurður um hvort nemendurnir hafi komið einhverju sérstöku á framfæri við hann í gær við afhendinguna segir Ragnar að þau hafi sagt Jón Pétur vera ljúfasta mann með góða reynslu og að þau stæðu á bak við sinn mann. Hann segist hafa hrósað þeim fyrir nemendalýðræðið og að hafa sýnt skoðun sína, sem hann telji rétt að börn jafnt og eldra fólk geri.

Varð klökkur við að lesa fréttir í morgun

Þegar mbl.is heyrði í Jóni Pétri í morgun sagðist hann hafa verið klökkur að lesa fréttir í morgun og að viðurkenndi að þetta hafi snert hann djúpt. Hann segir þá aðferð sem krakkarnir beittu til að koma skoðunum sínum á framfæri þó ekki hafa komið sér á óvart, enda sé byggi starf skólans á því að krakkarnir láti í sér heyra ef það sé eitthvað sem skipti þau máli. „Allir sem þekkja andann í skólanum, þetta kemur þeim örugglega ekki á óvart,“ segir hann.

Plataður til að prófa starfið til eins árs

Jón Pétur hóf störf við Réttarholtsskóla árið 1997, þá samhliða háskólanámi, en svo í fullu starfi frá 1998. Hann var náttúrufræðikennari frá þeim tíma til 2007 þegar honum bauðst staða aðstoðarskólastjóra. Jón Pétur segir að upphaflega hafi hann ekki haft neinn áhuga á stjórnendastöðunni, en að skólastjórinn hafi platað hann að prófa starfið til eins árs.

Jón Pétur segist hafa verið hræddur um að missa tengslin við krakkana í nýrri stöðu. Hann hafi aftur á móti ræktað þau með að vera mikið í frímínútum þar sem hann tali við krakkana og ekki síst hlusti eftir því sem þau segi. Þá hefur hann komið að félagsmálum, meðal annars Skólahreysti. Segir hann að skólamálin snúist ekki aðeins um að vera vinnustaður, heldur þurfi að fylgja með metnaður og þá sé þetta í raun lífstíll sem fólk velur.

Reynir að læra nöfn allra

Undanfarin ár hefur hann einnig gengið í yngsta bekk skólans á fyrstu dögum skólastarfsins með það fyrir augum að læra nöfn allra nemendanna. Segir hann að mikilvægt sé að kynnast krökkunum strax, sérstaklega þeim sem séu líkleg til að gera eitthvað af sér. Með því verði hann vinur þeirra sem minnki líkur á að upp komi vandamál þegar líður á skólagönguna.

 

Stuðnignsyfirlýsing nemenda.
Stuðnignsyfirlýsing nemenda.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert