Var kældur í tvo sólarhringa

Drengnum var haldið sofandi þangað til í gær.
Drengnum var haldið sofandi þangað til í gær. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sérhæfðri kælimeðferð var beitt á drenginn sem var hætt kom­inn við Reykdals­stíflu í Hafnar­f­irði fyrr í vik­unni ásamt bróður sín­um og gera má ráð fyrir því að hún hafi átt þátt í því að hann er nú vaknaður og batahorfur hans góðar. 

Drengurinn, sem er 9 ára gamall, var út­skrifaður af gjör­gæslu­deild Land­spít­al­ans í morg­un og dvel­ur nú á Barna­spítala Hrings­ins. Honum var haldið sof­andi í önd­un­ar­vél fyrst eft­ir slysið en var vak­inn á föstu­dag­inn. Bróðir hans, sem er 12 ára, var end­ur­lífgaður á slysstað. 

Lækka hita niður í 32 til 34 gráður

Kælimeðferð felst í því að líkamshiti sjúklings er lækkaður niður í 32 til 34 gráður, en með því er hægt að draga verulega úr líkum á heilaskaða. Felix Valsson, sérfræðilæknir í svæfingu og gjörgæslu á Landspítala, segir aðeins örfá dæmi um það að slíkri meðferð hafi verið beitt á sjúklinga sem hafa lent í drukknun, en hún hafi sýnt góðan árangur.

„Með meðferðinni er sérstökum æðalegg komið fyrir í nára sjúklings sem hægt er að nota til að stýra líkamshita hans. Þá er sjúklingnum haldið sofandi og köldum í að minnsta kosti sólarhring áður en hann er hitaður hægt og rólega upp í eðlilegt hitastig,“ útskýrir Felix. Eftir það sé slökkt á svæfingunni og beðið eftir því að sjá hvernig viðbrögð sjúklings verða, sem í sumum tilfellum séu þannig að hann ranki við sér og sýni strax góð batamerki.

Aðspurður hvernig meðferðin dregur úr líkum á heilaskaða segir Felix að með kælingunni sé efnaskiptahraði hjá heilafrumum lækkaður svo þær fái í raun hvíld og tíma til að jafna sig. Þetta takmarki skaða og hjálpi einnig til við batann.

Dæmi um að sjúklingar lifi þriggja tíma hjartastopp af

Kælimeðferð er annars vegar notuð á sjúklinga sem verða fyrir skyndilegu hjartastoppi af völdum hjartasjúkdóms, og hins vegar sjúklinga sem hafa orðið fyrir öndunarstoppi t.d. í drukknun. Að sögn Felix eru yfirleitt miklu verri horfur hjá þeim síðarnefndu því þá hefur hjartað stoppað vegna súrefnisskorts og í þeim tilfellum verður heilinn oft fyrir skaða.

Ef líkaminn hefur þó kólnað hratt áður en sjúklingur fer í hjartastopp, eru þó dæmi um að sjúklingar lifi af þrátt fyrir að hafa verið í hjartastoppinu í allt að 3 klukkustundir.

Kælimeðferð hefur verið beitt á vel yfir 400 sjúklinga sem hafa farið í hjartastopp af völdum hjartasjúkdóms, en aðeins á nokkra sem hafa lent í drukknun að sögn Felix. Þá segir hann það fyrst hafa verið gert á dreng sem lenti í drukknun í Breiðholtslaug, en hann náði sér algjörlega.

Mikilvægt að bregðast rétt við á slysstað

Felix bendir loks á mikilvægi þess að bregðast rétt við á slysstað, og segir alla þá sem komi að björgun eiga þátt í því þegar sjúklingur nær góðum bata. „Það er mjög mikilvægt að það sé kallað eftir hjálp strax og hafist handa við hjartahnoð. Þá skiptir miklu máli að sjúkraflutningamenn séu með rétt viðbrögð og við stöndum vel þar sem við eigum mjög góða sjúkraflutningamenn hér á landi. Þegar á spítalann er komið hefst svo þessi sérhæfða meðferð,“ útskýrir hann. „Það eru ótrúlega margir sem koma að þessu og það eiga allir þátt í því þegar sjúklingi heilsast vel.“

Frá björgunaraðgerðum í Reykjadalsstíflu í Hafnarfirði.
Frá björgunaraðgerðum í Reykjadalsstíflu í Hafnarfirði. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert