3,2 milljónir í ráðgjöf vegna lekamáls

Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra. mbl.is/Golli

Innanríkisráðuneytið greiddi tæplega rúmlega 3,2 milljónir króna í fjölmiðla- og lögfræðiráðgjöf vegna lekamálsins á síðasta ári. Fjölmiðlaráðgjöfin var fengin hjá Argus markaðsstofu og lögfræðiráðgjöf hjá LEX lögmannsstofu. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata.

Argus veitti fjölmiðlaráðgjöf  á sviði almannatengsla og kynningarmála, einkum vegna mikillar umfjöllunar í fjölmiðlum um meðferð persónuupplýsinga á þessum tíma.

Ráðgjöf LEX var veitt ráðuneytinu vegna kæru á hendur ráðuneytinu og ráðherra um meðferð persónuupplýsinga. Ráðgjöfin var bæði munnleg og skrifleg. Ráðgjöfin sneri annars vegar að frumgreiningu LEX á því hvort umfjöllun fjölmiðla gæfi tilefni til höfðunar meiðyrðamáls. Í kjölfarið tók aðstoðarmaður ráðherra ákvörðun um höfðun meiðyrðamáls og bar sjálfur kostnað af því máli. Hins vegar sneri ráðgjöfin að réttarstöðu sakborninga og vitna á rannsóknarstigi máls samkvæmt lögum um meðferð sakamála, m.a. um skyldu til að mæta til skýrslutöku, rétt til að hafa lögmann viðstaddan, aðgang að gögnum og skyldu til að svara spurningum.

Fjölmiðlaráðgjöf Argus markaðsstofu var veitt í nokkur skipti árið 2014, fyrst á tímabilinu febrúar til apríl og síðan september til nóvember. Dagsetningar reikninga ráðgjafarinnar eru 8. febrúar, 8. mars, 27. mars, 25. apríl, 20. september, 20. október og 18. nóvember. Heildarkostn­aður nam 2.394.300 kr.

Ráðgjöf frá LEX lögmannsstofu var veitt annars vegar í apríl og hins vegar í ágúst 2014. Reikningar eru dagsettir 30. apríl og 31. ágúst. Heildarkostn­aður nam 859.825 kr.

Samtals var kostnaður vegna fjölmiðla- og löfræðiráðgjafar árið 2014 því 3.254.125 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka