Hefði mögulega farið til FME

Frá réttarhöldunum í dag.
Frá réttarhöldunum í dag.

Kaupþing var greinilega búið að búa til viðskiptanet eigin viðskipta og miðlunar með góðum kúnnum bankans. Eftir á að hyggja sá maður hvernig fjármögnunin var og fannst þetta kannski pínu slæmt. Þetta sagði Pétur Kristinn Guðmarsson, fv. verðbréfamiðlari hjá Kaupþingi, í réttarhöldum um meinta markaðsmisnotkun Kaupþings í dag.

Fjármálaeftirlitið í Svíþjóð vottaði viðskiptin þar í landi

Vísað var í símtal sem Pétur hafði átt árið 2010, en þar sagðist hann ekki hafa grunað að þeir væru að taka þátt í neinu lögbroti. „Ég náttúrulega bara ég er bara inn í minni deild,“ sagði hann í símtalinu.

Kom fram að Pétur hefði verið á fundi þar sem efasemdir komu upp um að skipanir yfirmanna hans væru eðlilegar. Sagði hann að þótt efasemdir hefðu komið upp, þá hefði nýleg endurskoðun fjármálaeftirlits Svíþjóðar á eigin viðskiptum þar í landi komið jákvætt út, þannig að hann hefði ekki haft neina ástæðu til að efast um heilindi yfirmanna sinna. Hann viðurkenndi þó að orðið markaðsmisnotkun hefði komið upp á fundinum, en man ekki nákvæmlega í hvaða samhengi.

Hefði mögulega farið til Fjármálaeftirlitsins

Í öðru símtali vitnaði Pétur til þess að eftir hrunið og stofnun nýja bankans hefðu verið ráðstefnur og fundir þar sem komið var inn á gáleysi á árunum fyrir hrun. Sagðist hann eftir á mögulega hafa brugðist allt öðru vísi við. Saksóknari spurði hann út í þetta atriði og sagði Pétur að hann hefði mögulega farið til Fjármálaeftirlitsins hér á landi.

Kauphliðin var alveg lögleg en spurning um söluhliðina

Hann tók þó fram að hér ætti hann aðeins við söluhliðina, en Pétur sjálfur vann á kauphliðinni, eins og útlistað var nánar í fyrri samantekt mbl.is. „Kaupin sem slík eru í lagi, en ef maður skoðar söluna er það eitthvað bogið í gangi eins og virtist vera með dóminn í Al Thani,“ sagði Pétur í dag.

Átti hann þar við dóm í Al Thani-málinu þar sem nokkrir yfirmenn Kaupþings voru dæmdir fyrir markaðsmisnotkun. „Aldrei neitt óeðlilegt við okkar kaup í bankanum,“ sagði Pétur. „Við erum bara starfsmenn á plani og við erum bara í okkar eigin boxi hérna og þú veist. Við vitum ekkert hvernig þessir pakkar eru fjármagnaðir.“

Í málinu verða bæði kaup- og söluhliðin skoðar og virðist Pétur meina að kauphliðin, sem hann vann á hafi verið fullkomlega lögleg og óháð söluhliðinni. Þar aftur á móti segir hann að mögulega eitthvað slæmt hafi átt sér stað.

Björn Þorvaldsson, saksóknari málsins hefur yfirheyrt Pétur Kristinn í allan …
Björn Þorvaldsson, saksóknari málsins hefur yfirheyrt Pétur Kristinn í allan dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert