Slátra engu og bíða svara

Sveinn Vilberg Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls.
Sveinn Vilberg Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls. mbl.is/Árni

Ekki má slátra dýrum í sláturhúsum landsins ef dýralæknir er ekki viðstaddur. Ótímabundið verkfall félagsmanna BHM í Dýralæknafélagi Íslands hófst á miðnætti og bættust dýralæknar því í hóp fjölda annarra félagsmanna sem hófu verkfallsaðgerðir fyrir tveimur vikum en um er að ræða 39 dýralækna. Engum dýrum verður slátrað nema undanþága fáist, eða ef samningar nást. 

Búið er að slátra því sem átti að slátra í þessari viku hjá Sláturfélagi Suðurlands (SS). Að jafnaði slátrar starfsfólk Matfugls 5 til 15 þúsund alifuglum á degi hverjum og var áætlað að slátra 45 þúsund alifuglum í þessari viku. Undanþágunefnd tekur til starfa í dag og þá liggur fyrir hvort þær undanþágur sem sótt hefur verið um verði samþykktar.

Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar, sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að ef undanþágur yrðu ekki veittar komu fljótlega upp dýravelferðarmál er snúa að svínum og alifuglum þar sem er mikill vaxtarhraði og fljótt verður mjög þröngt í húsum. Ekki er hægt að slátra kjúklingum langt fram í tímann.

Þá sagði Guðbjörg Þorvarðardóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands, í samtali við mbl.is að undanþágur yrðu veittar í ákveðnum tilfellum. Þær myndu þó fyrst og fremst snúa að málum er snúa að velferð dýra en óvíst væri um aðrar undanþágur.

Starfsfólkið situr ekki aðgerðalaust

Ákveðið var að nýta tímann vel hjá Sláturfélagi Suðurlands í síðustu viku og slátra heldur fleiri dýrum en venjulega, þá aðallega svínum. Því er búið að slátra öllum þeim dýrum sem átti að slátra í þessari viku.

Að sögn Steinþórs Skúlasonar, forstjóra SS, situr starfsfólk ekki aðgerðalaust þó verkfall sé skollið á. Starfsfólkið mun meðal annars úrbeina frosið kjöt, sinna viðhaldi á Selfossi og þá mun hluti starfsfólksins fara yfir á Hvolsvöll og sinna verkefnum þar.

Guðmundur Svavarsson, framleiðslustjóri fyrirtækisins, segir aðspurður um undanþágur að bændurnir sæki sjálfir um slíkt, þ.e. þær sem snúa að dýraverndunarsjónarmiðum. Fyrirtækið styðji aftur á móti við bakið á þeim bændum sem sækja um undanþágur ef til þess kemur. 

Samkvæmt upplýsingum frá Matfugli er að jafnaði 5 til 15 þúsund kjúklingum slátrað á degi hverjum á fyrirtækinu. Sótt var um undanþágur vegna slátrunar og er von á svörum frá undanþágunefndinni síðar í dag. 

Ákveðið var að nýta tímann vel hjá Sláturfélagi Suðurlands í …
Ákveðið var að nýta tímann vel hjá Sláturfélagi Suðurlands í síðustu viku. Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert