Svaf yfir sig og bréfin lækkuðu

Saksóknari tengdi símtal til Péturs við óeðlilegt inngrip á markað. …
Saksóknari tengdi símtal til Péturs við óeðlilegt inngrip á markað. Hafði Pétur sofið yfir sig og bréf í bankanum lækkað um 4% sama morgun.

„Ef kallinn er ekki með púlsinn á puttanum að þá er bara stokkurinn dauður.“ Þetta sagði Frosti Reyr Rúnarsson, fv. forstöðumaður hlutabréfamiðlunar Kaupþings við verðbréfamiðlarann Pétur Kristinn Guðmarsson, sem ákærður er í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Í dómsal var lesið upp úr símtali sem þeir áttu á milli sín eftir að Pétur svaf yfir sig einn daginn.

Hermirinn krassaði

Saksóknari reyndi að tengja þetta við að þeir hefðu reynt að hafa óeðlileg áhrif á markaðinn með að halda verði uppi eða í stað. Benti hann á að verð á bréfum Kaupþings hefði þennan morgun lækkað um 4% og að símtalið hafi komið beint í kjölfarið.

Til að fá betri sýn á það sem var í gangi þennan dag óskaði Pétur eftir því að fá Kauphallarhermi saksóknara upp á skjáinn í dómsalnum. Það reyndist aftur á móti þrautin þyngri þar sem tölva saksóknara var með vandræði og kom með villur þegar reynt var að keyra forritið. Því varð að fresta málinu fram yfir hádegi, en samkvæmt áætlun mun Pétur sitja fyrir svörum næstu tvo daga.

Fékk Svíþjóð vegna þjálfunar í hernum

Það vakti nokkra athygli manna í salnum þegar umrætt símtal var lesið upp að Pétur hafði sofið yfir sig. Fyrr í vitnaleiðslunni hafði hann nefnilega tekið fram að hann sæi aðallega um markaðinn í Svíþjóð, þar sem hann þyrfti þá að vakna tveimur klukkustundum fyrr. Sagði Pétur það fyrirkomulag orsakast af því að hann væri vanur því að vakna á morgnana frá því hann var í herþjálfun.

„Þetta var örugglega frá því að ég var í hernum, vanur að vakna snemma,“ sagði hann um Svíþjóðarfyrirkomulagið. Eftir menntaskólapróf hafði hann farið í herforingjaskóla erlendis áður en hann kom heim og tók viðskiptafræði og meistarapróf í fjármálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert