Deild eigin viðskipta Kaupþings var í raun með tvo hatta, bæði sem viðskiptavaki og fjárfestir sem stóð í stöðutökum. Þetta sagði Pétur Kristinn Guðmarsson, fyrrverandi verðbréfamiðlari hjá Kaupþingi og einn ákærðu í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings.
Sérstakur saksóknari gerði mikið úr því að strangar reglur giltu um viðskiptavaka, en Pétur sagði að þeir hefðu ekki verið hefðbundinn slíkur, heldur hafi hlutverk þeirra verið einskonar þjónusta við hluthafa með að auka seljanleika bréfa. Á sama tíma hafi deildin verið fjárfestir sem sá tækifæri þegar fólk seldi bréf en losaði svo við þau þegar verð hækkaði.
„Þetta eru þessir tveir hattar, við erum að hugsa um seljanleikann og svo er þessi stöðutaka,“ sagði Pétur í dómsalnum í morgun. Spurði saksóknari hann hvort þetta væri eðlileg hegðun viðskiptavaka og sagði Pétur ljóst að þeir hafi verið kveikja að viðskiptum og að viðskiptavakt gangi út á það. Þá hafi þeir losað sig við bréf í bankanum, þótt það hafi að meirihluta verið gert gegnum utanþingsviðskipti, en ekki í sjálfvirku kerfi Kauphallarinnar.
Ekkert við þetta væri óeðlilegt eða ólöglegt og þeir hafi verið innan allra laga sem giltu um eigin viðskipti. Benti hann á að rammi þeirra hafi verið rétt undir 5% af heildarbréfum í bankanum, en lögin banni að bankinn eignist meira en 10%.
Sagði Pétur að deild eigin viðskipta hafi verið stór í bæði kaupum og sölum. Þegar saksóknari spurði af hverju þeir hafi ekki selt í gegnum kerfi Kauphallarinnar sagði Pétur að það hefði verið ákvörðun yfirstjórnar. Sagði hann þó fyrirmæli hafa komið um að kaupa meira af bréfum þegar framboð var umfram eftirspurn og að slík hafi komið frá yfirmönnum sínum.
Uppsafnað tap bankans vegna eigin viðskipta var á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 8. október 2008, 6,3 milljarðar. Aðspurður hvort slíkt hafi þótt eðlilegt sagði Pétur að staðan hafi auðveldlega snúist við. Þannig hafi uppsöfnuð staða verið í tapi, farið í núllpunkt og aftur tap og svo í hagnað áður en hún fór aftur í mínus. Benti hann á að á rúmlega mánuði við upphaf árs 2008 hafi bankinn farið úr 3 milljarða tapi í 2,5 milljarða í hagnað. „Við höfðum trú á markaðinum,“ sagði hann um áframhaldandi viðskipti þrátt fyrir tapið.